Bátur strandaði á Breiðafirði

Öllum bjargað af farþegabát sem steytti á skeri

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst á þriðja tímanum síðdegis í gær neyðarkall frá farþegabáti sem hafði steytt á skeri á Breiðafirði, um þrjá kílómetra austur af Stykkishólmi. Níu voru um borð í bátnum, þar af slasaðist einn í strandinu. 

Fiskibátarnir Arnar og Blíða og farþegaskipið Særún héldu þegar í stað á vettvang. Þá voru Berserkir, björgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar, kallaðir út á fyrsta forgangi og Björg, björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Rifi, sett í viðbragðsstöðu.

Laust fyrir klukkan þrjú hafði öllum verið bjargað um borð í Særúnu og var farið með fólkið í Stykkishólm þar sem hlúð var að því.

TF-LIF, þyrla Landhelgisgæslunnar, var kölluð út vegna strandsins en hún var þá nýbúin að flytja fólk til Reykjavíkur frá slysstaðnum við Kirkjubæjarklaustur þar sem rúta valt fyrr um daginn. Þegar ljóst var að öllum í farþegabátnum var borgið var þyrlan kölluð aftur til Reykjavíkur.