NULL
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sæmdi á nýársdag tólf Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Efnt var til hátíðlegrar athafnar á Bessastöðum af þessu tilefni. Á meðal þeirra sem hlutu þessa viðurkenningu var Benóný Ásgrímsson fyrrverandi flugstjóri hjá Landhelgisgæslu Íslands. Hann var sæmdur riddarakrossi fyrir björgunarstörf og framlag til íslenskra flugmála.
Benóný þarf vart að kynna fyrir landsmönnum enda er hann einn fræknasti flugkappi okkar Íslendinga, Hann á að baki hreint stórkostlegan feril sem þyrluflugstjóri og er að öðrum ólöstuðum reynslumesti flugstjóri landsins í leitar- og björgunarflugi og þótt víðar væri leitað.Benóný fagnaði hálfrar aldar starfsafmæli sínu hjá Landhelgisgæslunni í ágúst síðastliðnum og í október var svo blásið til viðhafnarsamkomu þegar hann flaug sitt síðasta flug hjá Landhelgisgæslunni. Starfsmenn stóðu heiðursvörð og slökkvilið Reykjavíkurflugvallar myndaði heiðursboga yfir þyrluna er hún renndi í hlað.
Við óskum Benóný innilega til hamingju með þessa verðskulduðu viðurkenningu.