Bjölluskipti um borð í Óðni

Bjallan úr Óðni fer um borð í togarann Arctic Corsair.

Fyrir helgi var efnt til skemmtilegrar uppákomu um borð í varðskipinu Óðni, sem liggur bundið við bryggju í Reykjavíkurhöfn. Í tilefni samstarfs Sjóminjasafnsins í Reykjavík og systursafnsins í Hull kom í heimsókn sérleg sendinefnd skipuð starfsmönnum Sjóminjasafnsins í Hull og sjómönnum sem unnu um borð í breskum togurum á tímum þorskastríðanna.

Þeir Nick Wheeldon, fyrrverandi skipverji á togaranum Arctic Corsair, og Guðmundur Hallvarðsson, formaður Hollvinasamtaka Óðins skiptust á skipsbjöllum úr skipunum. Viðburðurinn er til marks um vináttu og traust þjóðanna á milli. Rétt eins og varðskipið Óðinn er Arctic Corsair safngripur í höfninni í Hull. 

Að loknum bjölluskiptunum fór fram málþing í Sjóminjasafninu um tengsl Hull og Íslands og síðar um daginn tók svo Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands á móti hópnum á Bessastöðum.