Björgunaræfingin Faxi heppnaðist vel
Rúmlega hundrað þátttakendur tóku þátt í sjóbjörgunaræfingunni Faxa 23 um helgina þar sem fjöldabjörgun farþega frá hvalaskoðunarskipi var æfð úti fyrir Reykjavík.
9.5.2023 Kl:13:22
Rúmlega hundrað þátttakendur tóku þátt í sjóbjörgunaræfingunni Faxa 23 um helgina þar sem fjöldabjörgun farþega frá hvalaskoðunarskipi var æfð úti fyrir Reykjavík. Viðbragðsaðilar og hvalaskoðunarfyrirtækið Elding stóðu að æfingunni.
Á æfingunni var líkt eftir eldsvoða um borð í hvalaskoðunarskipinu Eldey. Eftir að skipstjóri Eldeyjar lýsti yfir neyðarástandi um borð flutti þyrla Landhelgisgæslunnar slökkviliðsmenn frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um borð í skipið, áhöfnin á varðskipinu Þór var kölluð út sem og sjóbjörgunarsveitir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.Þeir mest slösuðu voru fluttir með þyrlunni til Reykjavíkur en björgunarsveitir fluttu aðra farþega hvalaskoðunarskipsins um borð í varðskipið Þór.
Á æfingunni gafst einstakt tækifæri til að samhæfa aðgerðir og samskipti viðbragðsaðila og útgerðar vegna neyðartilviks á borð við það sem æfingin tók til.
Landhelgisgæsla Íslands annaðist skipulagningu æfingarinnar í samvinnu við Slysavarnafélagið Landsbjörg, hvalaskoðunarfyrirtækið Eldingu, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, 112, almannavarnadeild ríkislögreglustóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu.
Æfingin var fjölmenn en að henni komu rúmlega 100 manns, þ.m.t. leikarar, áhöfnin hvalaskoðunarskipsins og viðbragðsaðilar.




