Björgunarþyrla danska flughersins kölluð út að Langanesi
Leitar og björgunarþyrla danska flughersins var kölluð út auk björgunarskipsins Gunnbjargar frá Raufarhöfn vegna 18 tonna línubáts sem varð vélarvana 3,5 sjómílur norður af Langanesi.
1.7.2020 Kl: 15:33
Leitar og
björgunarþyrla danska flughersins var kölluð út auk björgunarskipsins
Gunnbjargar frá Raufarhöfn vegna 18 tonna línubáts sem varð vélarvana 3,5
sjómílur norður af Langanesi í dag. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk boð um
vanda bátsins laust eftir klukkan 13:00. Þyrla danska flughersins var að koma
inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli þegar hún var kölluð út. Þyrlusveitin
danska hélt fyrst til Akureyrar og tók þar eldsneyti. Að því búnu fór hún
rakleiðis í átt að Langanesi. Fimm voru um borð í línubátnum og var rek bátsins
rúm sjómíla á klukkustund í átt að landi.
Danska björgunarþyrlan og björgunarskipið Gunnbjörg voru komin að bátnum um klukkan 15:00. Gunnbjörg var komin með línubátinn í tog fimm mínútum síðar og þegar ástandið var orðið tryggt gat þyrla danska flughersins snúið aftur til baka. Gunnbjörg dregur línubátinn til Raufarhafnar.
Þetta var í annað sinn sem stjórnstöð Landhelgisgæslunnar kallaði út þyrlu vegna báts í vanda í dag. Fyrr í dag var óskað eftir aðstoð björgunarsveitar og áhafnarinnar á TF-EIR vegna vélarvana báts við Ólafsfjarðarmúla. Alls hefur verið tilkynnt um fimm vélarvana báta til stjórnstöðvar Landhelgisgæslunnar það sem af er degi.
Sjósókn umhverfis landið hefur verið góð það sem af er degi. 750-800 skip og bátar voru á miðunum þegar mest var.
Björgunarþyrla danska flughersins verður til taks ákveðna daga hér á landi til 17. júlí eins og greint var frá í morgun
Frá flugi dönsku þyrluáhafnarinnar í gær. Mynd: Danski flugherinn.