Björgunarþyrla kanadíska flughersins við æfingar á Íslandi

Björgunarþyrla kanadíska flughersins er við æfingar á Íslandi þessa dagana en um er að ræða Agusta Westland CH-149 Cormorant björgunarþyrlu. Þyrlan er öllu jafna staðsett á Nýfundnalandi og sinnir leit og björgun á Atlantshafi á svæði sem heyrir undir Björgunarmiðstöðina í Halifax (MRCC Halifax) en það svæði liggur að björgunarsvæði Íslands. Tilgangur heimsóknarinnar er að efla samskipti þyrlusveita landanna og efla getu til að sinna leit og björgun á mótum björgunarsvæðanna. Þá er þetta liður í að bæta getu Íslands í að taka á móti erlendu björgunarliði ef á þyrfti að halda vegna umfangsmikilla björgunaraðgerða.

Kanadíska þyrlan æfði með varðskipinu Þór og björgunarsveitum á Austurlandi í vikunni og einnig var hún við æfingar á Langjökli ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar.

Heimsókn þyrlusveitarinnar til Landhelgisgæslunnar undirstrikar það góða samstarf sem Landhelgisgæslan á við þyrlubjörgunarsveit kanadíska flughersins. Samhæfð viðbrögð og upplýsingaskipti eru forsenda þess að vel takist til við stórar björgunaraðgerðir og því eru sameiginlegar æfingar sem þessar afar nauðsynlegar.

Meðfylgjandi myndir sem teknar voru annars vegar af kanadíska flughernum og hins vegar af Landhelgisgæslunni sýna glöggt hve stór og öflug þyrlan er, en hún er næstum helmingi stærri en þyrlur Landhelgisgæslunnar. 

 

Kanadíska björgunarþyrlan í flugskýli Landhelgisgæslunnar.

Mynd: kanadíski flugherinn.

 

Úr flugstjórnarklefa þyrlunnar.

Mynd: kanadíski flugherinn.

 

Æft með varðskipinu Þór.

Mynd: kanadíski flugherinn.

 

Þyrlan og Þór við æfingar.

Mynd: Landhelgisgæslan

 

Æfing með björgunarsveitum á Austurlandi.

Mynd: kanadíski flugherinn.

 

Fulltrúar Landhelgisgæslunnar færa kanadísku þyrlubjörgunarsveitinni þakklætisvott fyrir vel heppnaðar æfingar.           Frá vinstri: Höskuldur Ólafsson flugtæknistjóri, Stewart Wheeler sendiherra Kanada á Íslandi, Ásgrímur L. Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs og áhöfn kanadísku björgunarþyrlunnar.

Mynd: Landhelgisgæslan.

 

 Á flugi í fallegu veðri.

Mynd: Landhelgisgæslan.