Breiðafjörður kortlagður

Mælingaúthaldi Baldurs lauk fyrir skemmstu

  • Baldur-vid-maelingar-vid-solaruppras

11.10.2019 Kl: 11:24

Fyrr á þessu ári var fjölgeislamælir eftirlits- og sjómælingaskipsins Baldurs endurnýjaður. Nýr mælir er af gerðinni Teledyne RESON SEABAT T50-ER og er hann mikil bylting frá eldri mæli. Munar þar helst um mun meiri nákvæmni og upplausn auk þess sem hann getur mælt á talsvert meira dýpi. Þá var einnig bætt við nýjum mæli, svokölluðum jarðlagamæli, sem notaður er til að mæla þykkt setlaga á hafsbotni. Slíkar mælingar eru í þágu vísindasamfélagsins, en sem kunnugt er tekur Landhelgisgæslan þátt í verkefni með Hafrannsóknastofnun og fleiri vísinda- og rannsóknarstofnunum um kortlagningu hafsbotnsins.

Baldur hefur svo frá því í vor verið við sjómælingar á Breiðafirði en mælingaúthaldinu lauk fyrir skemmstu. Frá árinu 2017 hefur verið unnið að dýptarmælingum vegna fyrirhugaðrar útgáfu á nýju sjókorti í Breiðafirði sem mun ná frá Brjánslæk að Elliðaey við Stykkishólm og nær það því meðal annars yfir stærstan hluta af siglingaleið Breiðafjarðarferjunnar. Líkt og vænta mátti hafa mælingar á þessu svæði erfiðar og mjög seinlegar vegna aragrúa af eyjum, skerjum og boðum auk þungra sjávarfallastrauma og mikils munar flóðs og fjöru. Þá var stór hluti af svæðinu algerlega ómældur og engin almenn þekking til um botnlag og dýpi á þeim svæðum. Hefur því verið um afar vandasamt verk að ræða fyrir sjómælingamenn Landhelgisgæslunnar. Baldur hentar þó afar vel til dýptarmælinga í Breiðafirðinum þar sem hann er grunnristur og lipur. Um borð í Baldri er einnig léttbátur sem er sérútbúinn til dýptarmælinga og hefur hann talsvert verið notaður til mælinga á svæðum sem erfitt hefur verið að koma Baldri að.

Samhliða dýptarmælingum hafa sjómælingamenn sinnt sjávarfallamælingum með sérstökum flóðmælum sem settir voru upp á Brjánslæk, Reykhólum og í Stykkishólmi og verða gögnin úr þeim notuð til leiðréttinga á mældu dýpi miðað við sjávarstöðu hverju sinni, en dýpistölur í íslenskum sjókortum miðast við sjávarstöðu á meðalstórstraumsfjöru.

Mælingum í þetta nýja sjókort lauk nú í september og liggur nú fyrir úrvinnsla mælingagagna og svo kortagerðin sjálf og má reikna með að kortið verði gefið út innan fárra ára.

Auk mælinga í þetta nýja sjókort hafa á þessum þremur sumrum einnig verið gerðar dýptarmælingar vegna útgáfu nýrra hafnarkorta fyrir Brjánslæk og Reykhóla auk endurmælinga á dýpi fyrir núverandi hafnarkort Flateyjar og Stykkishólms.

Auk mælinga í Breiðafirði hefur Baldur einnig unnið að dýptarmælingum í hafnarkort Reykjavíkur ásamt því að sinna hinum ýmsu tilfallandi verkefnum líkt og löggæslu, leit og björgun og æfingum, en úthaldið endaði á þátttöku Baldurs í sprengjueyðingaræfingunni Northern Challenge.

Vid-strand-Blidu-SH-var-vettvangsstjorn-um-bord-i-BaldriVið strand Blíðu í júní árið 2019.Vid-maelingarVið mælingarLettbatur-Baldurs-vid-dyptarmaelingar-i-BreidafirdiLéttbátur Baldurs við dýptarmælingar.Flodmaelir-undirbuinnFlóðmælir undirbúinn. Maelingar-og-maeta-ThorBaldur við mælingar og Þór í grenndinni.Lettbatur-sjosetturLéttbátur sjósettur.Ahofn-Baldurs-2019-mynd-JPAÁslaug Ellen G. Yngvadóttir, Ágúst Ómar Valtýsson, Guðmundur Birkir Agnarsson, Andri Leifsson. Áhöfn Baldurs árið 2019.Breidafjordur-maelingar-2017-2019Breiðafjörður - mælingar 2019.Baldur-vid-maelingar-i-BreidafirdiBaldur við mælingar í Breiðafirði.Blida-SH-a-strandstadBlíða á strandstað.Baldur-vid-maelingar-vid-Hergilsey-i-BreidafirdiBaldur við mælingar. Ahofn-Baldurs-a-skipid-yfirgefid-aefinguÁhöfn Baldurs æfir að yfirgefa skipið.Baldur-vid-bryggju-i-FlateyBaldur við bryggju í Flatey.