Brýr fluttar með þyrlu Landhelgisgæslunnar

10. ágúst, 2022

Skemmtilegt samfélagsverkefni á Austurlandi

10.8.2022 Kl: 14:55

Áhöfnin á TF-EIR, þyrlu Landhelgisgæslunnar, tók í gær þátt
í afar skemmtilegu samfélagsverkefni á Austurlandi þegar brúarbitar, göngubrú og vatnstankar
voru flutt með þyrlunni.

Í upphafi hélt áhöfnin beint frá Reykjavík að Hengifossi og
lenti á túni skammt frá fossinum þar sem búið var að koma brúarbitum og handriðum
fyrir. Smiðir voru teknir um borð í þyrluna og fluttir upp að brúarstæðinu. Að
því búnu var brúarbitunum og handriðunum komið fyrir á sínum stað með aðstoð
þyrlunnar.

Á vef Austurfrétta kemur fram að á næstu dögum verði brúin
sjálf smíðuð ofan á bitana. Hún er staðsett á útsýnisstað neðan við Hengifoss.
Með brúnni verður til gönguleið hringinn í kringum gilið sem Hengifossá fellur í.

Þegar þessu var lokið hélt áhöfnin frá Hengifossi yfir á
Seyðisfjörð að bænum Selsstaðarbæ. Þar var búið að smíða göngubrú sem hífð var
í um 540 metra hæð og sett á sinn stað. Allt gekk eins og í sögu. Megin
byggingarefni beggja brúa er lerki úr Fljótsdal.

Því næst var haldið inn á Egilsstaðaflugvöll þar sem eldsneyti
var tekið á þyrluna áður en farið var í síðasta verkefni dagsins við
Herðubreiðarlindir. Þar voru þrír vatnstankar sem flytja þurfti á bílaplan við
skálann svo unnt væri að flytja þá landleiðina með bíl.

Landhelgisgæslunni er ljúft og skylt að taka þátt í
samfélagsverkefni sem þessu. Það var Gönguklúbbur Seyðisfjarðar sem óskaði
eftir aðkomu þyrlusveitarinnar að verkefninu sem hefur mikið æfingarlegt gildi
fyrir þyrluáhöfnina.

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurfrétta, gaf
Landhelgisgæslunni góðfúslegt leyfi til þess að nota meðfylgjandi myndir sem
teknar voru við Hengifoss í gær.

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0141TF-EIR á flugi. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0095Brúarbita komið fyrir við Hengifoss. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt. 

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0150TF-EIR á flugi. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt.

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0136TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, tekur á loft. 

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0103Brúarbita komið fyrir. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt.

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0084Brúarbitinn hífður með TF-EIR. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt.

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0030_snyrtTF-EIR kemur brúarbitanum á sinn stað. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt.

Hengifoss_bru_thyrla_agust22_0123Vandasamt verk. Ljósmynd: Gunnar Gunnarsson / Austurfrétt.