Dýptarmælingar í vestanverðum Húnaflóa

Fyrir liggur að endurnýja sjókort af þessu svæði með það að leiðarljósi að auka öryggi sjófarenda enn frekar.

  • Mynd-nr-5

26.6.2024 Kl: 10:23

Frá því um miðjan maí hefur sjómælingabáturinn Baldur verið við dýptarmælingar með fjölgeislamæli í vestanverðum Húnaflóa en fyrir liggur að endurnýja sjókort af þessu svæði með það að leiðarljósi að auka öryggi sjófarenda enn frekar.

Kerfisbundnar fjölgeisladýptarmælingar á svæðinu hófust í fyrra og til að byrja með er lögð áhersla á hafsvæðið frá Horni að Gjögri og út fyrir Óðinsboða. Mikið er um grunn og boða á svæðinu og eru mælingar því bæði erfiðar og varasamar og reynir talsvert á áhöfn Baldurs við slíkar aðstæður. Vegna þessa er svæðið afar seinlegt til mælinga og er talið að um 3-4 sumur taki að mæla þetta svæði.

Þegar ekki viðrar til dýptarmælinga þar norður frá sinnir áhöfnin á Baldri mælingum innar í Húnaflóa ef veður leyfir og hefur Steingrímsfjörðurinn til að mynda að mestu verið fjölgeislamældur.

Flestar mælingar sem núgildandi sjókort af svæðinu byggja á eru frá fyrri hluta síðustu aldar, og er nokkur hluti þeirra mælinga handlóðsmælingar. Dýptartölur sem notaðar eru í sjókortin eru því ansi gisnar og má því segja að tímabært hafi verið að hefja endurmælingar á svæðinu með nútíma tækni og nákvæmni.

Með fjölgeislamælingum má segja að hver steinn á hafsbotni sé mældur og eru frávik í staðsetninganákvæmni einungis örfáir sentimetrar. Með tilkomu nýrra mælinga sem settar verða í sjókortin á komandi árum verða sjókortin mun ítarlegri og nákvæmari og mun öryggi í siglingum á svæðinu þannig aukast til muna.

Mynd-nr-1

Hjörtur F. Jónsson yfirstýrimaður og Stefán Örn Ólafsson yfirvélstjóri við mælingar.

Mynd-nr-2

Hjörtur F. Jónsson yfirstýrimaður undirbýr mælingar á léttbáti.

Mynd-nr-3

Hjörtur F. Jónsson yfirstýrimaður við dýptarmælingar á léttbáti Baldurs.

Mynd-nr-4

Áhöfn Baldurs æfir björgun manna úr sjó með Neyðarnótinni Hjálp.

Mynd-nr-5

Áhöfnin á Baldri sjósetur léttbát.

Mynd-nr-6

Sindri Skarphéðinsson bátsmaður og Stefán Örn Ólafsson yfirvélstjóri við æfingar á slöngubáti Baldurs.

Mynd-nr-7

Flak sem fannst í Steingrímsfirði í byrjun júní. Talið vera að Jóni Pétri ST-21 sem fargað var í firðinum á níunda áratug síðustu aldar.

Mynd-nr-8

Guðmundur Birkir Agnarsson skipstjóri undirbýr köfun til að skoða mælingabúnað undir Baldri.

Mynd-nr-9

Yfirlit yfir mælingar í Húnaflóa sumarið 2023 og það sem af er sumrinu 2024.