Einn staðinn að ólöglegum veiðum

Landhelgisgæslan vill brýna fyrir skipstjórum að kynna sér vel skyndilokanir og önnur lokuð svæði áður en haldið er til veiða.

21.8.2018

Nokkur fjöldi skipa og báta voru á sjó í gær. Þegar mest var höfðu varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar eftirlit með 655 skipum og bátum á miðunum í kringum landið. TF-SYN, þyrla landhelgisgæslunnar, fór í gæsluflug um Norðurland og Vestfirði laust eftir hádegi í gær. Þegar þyrlan flaug yfir Húnaflóa var bátur staðinn að ólöglegum handfæraveiðum í skyndilokunarsvæði í flóanum. Áhöfn þyrlunnar vísaði bátnum til hafnar þar sem lögreglan tók við rannsókn málsins. Skipstjórans bíður kæra. Landhelgisgæslan vill brýna fyrir skipstjórum að kynna sér vel skyndilokanir og önnur lokuð svæði áður en haldið er til veiða. Á vef Fiskistofu má finna allar upplýsingar um slík svæði.