Eldur kom upp í fiskibát á Siglufirði

23. september, 2023

Björgunarskip og þyrla kölluð út

23.9.2023 Kl: 9:26

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um að eldur væri í vélarrúmi fiskibáts sem staddur var um 500 metra norður af Siglufjarðarhöfn laust fyrir klukkan eitt í nótt. Þrír voru um borð í bátnum.Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og áhöfn björgunarskipsins Sigurvins, frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, voru þegar í stað kölluð út á mesta forgangi.Björgunarskipið fór frá Siglufirði örfáum mínútum síðar, tók fiskibátinn á síðuna og færði að bryggju á Siglufirði þar sem slökkviliðsmenn fóru um borð. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þá afturkölluð. Engan sakaði um borð í bátnum.