Eldur kom upp í togbáti

Áhöfnin réði niðurlögum eldsins

  • TF-EIR-a-flugi

23.8.2022 Kl: 10:58

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og sjóbjörgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Vestfjörðum voru kallaðar út í gærkvöld eftir að eldur kom upp í vélarrúmi togbáts sem staddur var úti fyrir Patreksfirði.

Áhöfn togbátsins hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar laust fyrir klukkan hálf tíu og var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar þegar í stað kölluð út ásamt slökkviliðsmönnum frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem fóru með þyrlunni vestur.

Tíu voru um borð í togbátnum. Áhöfninni tókst að loka vélarrúminu og rúmum hálftíma eftir að aðstoðarbeiðnin barst var búið að reykræsta bátinn. Þyrla Landhelgisgæslunnar sneri þá við en björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar hélt áleiðis að togbátnum sem sigldi fyrir eigin vélarafli til hafnar.