Eyddu virkri handsprengju nálægt Ásbrú

Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út á sunnudag.

  • Eftir-sprengingu

1.10.2019 Kl: 12:24

Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út síðdegis á sunnudag, að beiðni lögreglunnar á Suðurnesjum, vegna handsprengju sem fannst á svokölluðu Patterson svæði nálægt Ásbrú.

Tveir liðsmenn sprengjueyðingarsveitarinnar fóru á staðinn og í ljós kom að um var að ræða virka handsprengju á þekktu sprengjuæfingasvæði gamla varnarliðsins. Talið er að handsprengjan hafi verið í jörðu og komið upp á yfirborðið í jarðvegslyftingum. Vel gekk að eyða sprengjunni.

Umrætt svæði hefur margoft verið leitað og hreinsað en endrum og sinnum finnast þar sprengjur á borð við þessa sem koma upp á yfirborðið.

Landhelgisgæslan leggur því áherslu á að fólk gæti varúðar á svæðinu. Leiki grunur á að um sprengju sé að ræða er mikilvægt að láta lögreglu vita.

Handsprengja-virkHandsprengjan sem fannst var virk.Eftir-sprenginguGígurinn sem myndaðist að sprengingu lokinni.