Fallhlífarstökk úr flugvélinni TF-SIF

Landhelgisgæslan tók þátt í björgunaræfingunni Skýjum ofar á Öræfajökli

Tíu manns lenda í snjóflóði við Hvannadalshnjúk. Þrír úr hópnum hrapa ofan í sprungu og þarf að bjarga þeim upp úr henni. Þetta voru aðstæðurnar sem þátttakendur í afar krefjandi björgunaræfingu sem haldin var um síðustu helgi þurftu að glíma við.

Áhafnir flugvélar Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, og þyrlunnar TF-LIF tóku þátt í æfingunni ásamt fallhlífahóp Flugbjörgunarsveitarinnar og félaga úr öðrum björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, auk Lögreglunnar á Suðurlandi. Markmiðið var að líkja eftir útkalli á hæsta jökli landsins, þeir hópar sem færu á staðinn yrðu að vera sjálfbjarga án utanaðkomandi stuðnings.


Mynd: Guðbrandur Örn Arnarsson

Ákveðið var að æfingin færi fram við Þuríðartind í Öræfajökli, en aðstæður þar eru keimlíkar því sem gerist við Hvannadalshnjúk. Fyrstir á vettvang voru félagar í Björgunarfélagi Hornafjarðar á vélsleðum en skömmu síðar kom flugvélin TF-SIF með fjóra fallhlífarstökkvara úr Flugbjörgunarsveitinni. Þeir stukku úr vélinni með tjald, vistir og björgunarbúnað og lentu í 1.640 metra hæð, rétt vestan við tindinn. 


Mynd: Guðbrandur Örn Arnarsson

Í kjölfarið komu björgunarhóparnir á staðinn einn af öðrum. Þyrlan TF-LIF ferjaði nokkra á vettvang, aðrir komu sér þangað á jeppum og öðrum farartækjum. Vistum var kastað niður á staðinn úr flugvél Landhelgisgæslunnar og þyrlan flutti „slasaða“ til byggða.

Mynd: Guðbrandur Örn Arnarsson

Þátttakendum bar saman um að þessi einstaka æfing hefði verið mjög gagnleg. Við þessar erfiðu aðstæður gætu fallhlífarstökkvarar sem fluttir eru með hraði á vettvang með flugvél gert gæfumuninn enda skiptir hver mínúta máli þegar snjóflóð eru annars vegar.

Síðast en ekki síst má nefna að lendingarstaðurinn við Þuríðartind er einn sá hæsti sem um getur hér á landi. Eftir því sem Landhelgisgæslan kemst næst hafa fallhlífarstökkvarar aðeins einu sinni lent á stað hérlendis sem er hærra yfir sjávarmáli, á Eyjafjallajökli, litla frænda Öræfajökuls. 


Mynd: Guðbrandur Örn Arnarsson