Sex fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar sinnti þremur útköllum í dag.

Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ, sinnti tveimur útköllum í dag. Í fyrra skiptið óskaði Neyðarlínan eftir aðstoð þyrlunnar vegna umferðarslyss sem orðið hafði við Hítará á Mýrum. Þyrlan flutti fjóra slasaða á Landspítalann í Fossvogi en þar lenti hún laust fyrir klukkan þrjú í dag. Skömmu síðar var þyrlan aftur kölluð út vegna slyss. Þá hafði kona slasast við Gullfoss og var óskað eftir aðstoð þyrlunnar. Þyrlan flutti konuna á sjúkrahús í Reykjavík og lenti við Landspítalann í Fossvogi um klukkan 16:30. Á tólfta tímanum í kvöld var þyrla Landhelgisgæslunnar kölluð út í þriðja sinn. Þá flutti hún slasaðan dreng á sjúkrahús sem orðið hafði fyrir slysi í Holtshreppi í Rangárvallasýslu. Alls voru því sex fluttir á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag.