Fjallaljón og gaupa saman á flugi

Lynx-þyrla danska sjóhersins og Super Puma þyrla LHG í samflugi

Eins og fram kemur í annarri frétt hér á heimasíðu LHG flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með vísindamenn yfir Bárðarbungu, Öræfajökul og fleiri svæði um helgina til að kanna aðstæður með tilliti til hugsanlegra jarðhræringa.

Áður en haldið var til rannsókna flaug TF-LIF með Lynx-þyrlu danska sjóhersins sem var hér við land með einu af eftirlitsskipum hans. Lynx-þyrlurnar hafa í hátt í fjóra áratugi verið í þjónustu danska sjóhersins. Þær þóttu á sínum tíma alger bylting enda voru þær þá með hraðfleygustu leitar- og björgunarþyrlum í heimi.

Nú er verið að skipta þeim út fyrir nýrri þyrlur af gerðinni Sikorsky SH-60 Seahawk. Þess vegna var tækifærið notað til að mynda eina af þeim síðustu með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Þyrlurnar lentu svo í stutta stund á Skálafelli til frekari myndatöku áður en þær flugu svo hvor sína leið. 

IMG_3278i

Lynx-þyrlan. Mynd: Björn Oddsson.

Það er skemmtileg tilviljun að báðar þyrlurnar heita eftir kattardýrum. Super Puma-þyrla LHG heitir eftir ameríska fjallaljóninu en Lynx-þyrlan dregur nafn sitt af gaupunni.