Fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hljóta fullgild köfunarréttindi

Fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hlutu í gær fullgild köfunarréttindi er þeir luku köfunarnámskeiði með glæsibrag sem haldið var sameiginlega af Landhelgisgæslunni, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Ríkislögreglustjóra. Námskeiðið var langt og strembið og stóð yfir í 7 vikur. Alls luku 11 aðilar námskeiðinu í gær; fjórir frá Landhelgisgæslunni, þrír frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og fjórir frá Ríkislögreglustjóra. Voru skipuleggjendur námsins sammála um að þar væri á ferð samhentur og öflugur hópur frá þessum þremur samstarfsstofnunum.

Hæstu einkunn á námskeiðinu hlaut Sverrir Harðarson starfsmaður Landhelgisgæslunnar í séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit með 9,55 í meðaleinkunn. Glæsilegur árangur hjá honum og öllum þeim sem útskrifuðust í gær.

 
Nýútskrifaðir kafarar Landhelgisgæslunnar.
Frá vinstri: Sverrir Harðarson úr séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit, Aron Karl Ásgeirsson háseti, Andri Rafn Helgason háseti og Baldur Ragnars Guðjónsson stýrimaður.

 
Kapparnir með forstjóra Landhelgisgæslunnar og leiðbeinendum frá Landhelgisgæslunni.
Frá vinstri: Gísli Valur Arnarson og Henning Þór Aðalmundsson leiðbeinendur. Svo koma nýútskrifuðu kafararnir í röð þeir Sverrir Harðarson, Baldur Ragnars Guðjónsson, Andri Rafn Helgason og Aron Karl Ásgeirsson og að lokum Jónas Karl Þorvaldsson fagstjóri köfunarsveitar Landhelgisgæslunnar og Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar.
 
Hópurinn allur að lokinni útskrift ásamt umsjónaraðilum námsins frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni.