Fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hljóta fullgild köfunarréttindi
Fjórir starfsmenn Landhelgisgæslunnar hlutu í gær fullgild köfunarréttindi er þeir luku köfunarnámskeiði með glæsibrag sem haldið var sameiginlega af Landhelgisgæslunni, Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og Ríkislögreglustjóra. Námskeiðið var langt og strembið og stóð yfir í 7 vikur. Alls luku 11 aðilar námskeiðinu í gær; fjórir frá Landhelgisgæslunni, þrír frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og fjórir frá Ríkislögreglustjóra. Voru skipuleggjendur námsins sammála um að þar væri á ferð samhentur og öflugur hópur frá þessum þremur samstarfsstofnunum.
Hæstu einkunn á námskeiðinu hlaut Sverrir Harðarson starfsmaður Landhelgisgæslunnar í séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit með 9,55 í meðaleinkunn. Glæsilegur árangur hjá honum og öllum þeim sem útskrifuðust í gær.
Nýútskrifaðir kafarar Landhelgisgæslunnar. Frá vinstri: Sverrir Harðarson úr séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit, Aron Karl Ásgeirsson háseti, Andri Rafn Helgason háseti og Baldur Ragnars Guðjónsson stýrimaður. |
Kapparnir með forstjóra Landhelgisgæslunnar og leiðbeinendum frá Landhelgisgæslunni. Frá vinstri: Gísli Valur Arnarson og Henning Þór Aðalmundsson leiðbeinendur. Svo koma nýútskrifuðu kafararnir í röð þeir Sverrir Harðarson, Baldur Ragnars Guðjónsson, Andri Rafn Helgason og Aron Karl Ásgeirsson og að lokum Jónas Karl Þorvaldsson fagstjóri köfunarsveitar Landhelgisgæslunnar og Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar. |
Hópurinn allur að lokinni útskrift ásamt umsjónaraðilum námsins frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunni. |