Fjórum bjargað um borð í TF-EIR eftir að fiskibátur strandaði
21 tonna fiskibátur strandaði við Gölt á utanverðum Súgandafirði í kvöld.
14.11.2019 00:10
Rúmlega tuttugu tonna fiskibátur strandaði við Gölt á utanverðum
Súgandafirði í kvöld. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá
bátnum klukkan 22:00 en fjórir voru um borð. TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar
var þegar í stað kölluð út sem og björgunarsveitir Slysavarnafélagsins
Landsbjargar á norðanverðum vestfjörðum.
Báturinn skorðaðist fljótlega á milli kletta og braut nokkuð á honum. Hægur vindur var á svæðinu og þónokkur alda.
Ekki reyndist unnt fyrir björgunarskip að komast nálægt strandstað frá sjó sökum brims og voru björgunarsveitir þá sendar landleiðina frá norðanverðum Súgandafirði.
TF-EIR, þyrla Landhelgisgæslunnar, kom á vettvang klukkan 23:42 og áhöfn hennar hófst þegar handa við að bjarga skipverjunum fjórum um borð í þyrluna. Á miðnætti var búið að bjarga mönnunum, heilum á húfi, um borð í þyrluna. Þeir voru fluttir til Ísafjarðar.
Varðskipið Týr er væntanlegt á strandsstað í fyrramálið og verða aðstæður skoðaðar með tilliti til þess hvort hægt verði að ná bátnum af strandsstað.
Hér má sjá myndband af björgun skipverjanna.