Fjörur hreinsaðar á Hornströndum

Áttunda sumarið í röð sem Landhelgisgæslan tekur þátt í verkefninu.

  • Hreinni-Hornstrandir-19062021-15-

21.6.2021 Kl: 11:13

Áhöfn varðskipsins Týs tók þátt í sérstaklega skemmtilegu verkefni í friðlandinu á Hornströndum um helgina. Vaskur hópur tuttugu og fimm sjálfboðaliða hreinsaði rusl úr fjörum Hlöðuvíkur en þar hófst verkefnið einmitt fyrir sjö árum.

Vaskur hópur tuttugu og fimm sjálfboðaliða hélt af stað í hádeginu á föstudaginn og hóf strax að hreinsa fjörurnar. Hópurinn tjaldaði og gisti á tjaldsvæðinu í Hlöðuvík en fékk svo liðsauka á laugardeginum frá hinum frábæru Seiglum, Kvennasigling, sem lögðu hönd á plóg í hreinsuninni.

Sjálfboðaliðarnir hirtu allskyns rusl í alls 60 poka og einnig annan úrgang sem ekki komst í pokana sem átti alls ekki heima í þeirri fallegu náttúru sem Hornstrandafriðlandið býður upp á. Afrakstur hópsins var glæsilegur og þegar yfir lauk hafði um átta tonn af rusli safnast saman sem var flutt með slöngubátum til varðskipsins.

Áður en haldið var aftur til Ísafjarðar um kvöldið var slegið upp grillveislu fyrir hópinn svo enginn færi nú svangur heim eftir erfiði dagsins.

Þetta er áttunda sumarið í röð sem efnt er til slíkrar sorphreinsunar á Hornströndum. Landhelgisgæslan er afar stolt að fá að vera með og leggja þannig sitt af mörkum við að halda ströndum landsins hreinum. Auk Landhelgisgæslunnar styðja Ísafjarðarbær, Umhverfisstofnun, Sjóferðir, Borea Adventures Iceland og Terra við þetta frábæra verkefni.

Hreinni-Hornstrandir-Ca-11-Ruslið ferjað með slöngubát varðskipsins.

Hreinni-Hornstrandir-19062021-5-Varðskipið Týr.

Hreinni-Hornstrandir-19062021-8-Vaskur hópur tuttugu og fimm sjálfboðaliða  hreinsaði rusl í fjörum Hlöðuvíkur.

Hreinni-Hornstrandid-ruslid-komid-i-land-a-Iso-2-Ruslið komið í land.

Hreinni-Hornstrandir-IP-2-Landhelgisgæslan hefur tekið þátt í verkefninu frá upphafi.

Hreinni-Hornstrandir-Ca-7-Thorben Lund, skipherra, á varðskipinu Tý. 

Hreinni-Hornstrandir-19062021-14-Afraksturinn.

Hreinni-Hornstrandir-19062021-11-Varðskipið og léttbátur þess. 

Hreinni-Hornstrandir-IP-1-Verkefnið tókst vel.