Flogið með vistir og hlíðar myndaðar

Áhöfnin á TF-GRO flaug með vistir fyrir innlyksa bónda í Skjaldfannardal auk þess sem sveitin myndaði snjóalög.

  • 20200318_200627

19.3.2020 Kl: 11:10

Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar flaug vestur á firði síðdegis í gær og sinnti þar verkefnum í samvinnu við lögreglu og Veðurstofu Íslands.  TF-GRO lenti í gærkvöld á Ísafjarðarflugvelli og sótti þar vistir sem lögreglan hafði komið fyrir í pappakössum og ætlaðar voru innlyksa bónda á bænum Skjalfönn. 

Þyrlusveitin flaug með vistirnar að bænum sem er í Skjaldfannardal við Snæfjallaströnd en vegna snjóalaga reyndist ekki unnt að lenda þyrlunni. Sigmanni var því slakað niður og vistunum komið fyrir í björgunarkörfu sem var látin síga úr þyrlunni. Sigmaðurinn bar matinn inn að bænum og ábúandinn var afar þakklátur fyrir aðstoðina.

Því næst flaug TF-GRO um þekkt snjóflóðasvæði fyrir snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands og kannaði snjóalög og myndaði svæðið með hitamyndavél. Flogið var um hlíðar ofan við bústaði í Skálavík auk þess sem svæðið ofan við Flateyri var myndað. Eftir myndatökur var haldið aftur til Reykjavíkur en þar lenti þyrlan skömmu fyrir klukkan 22 eftir vel heppnaða ferð.

Flogið með vistir fyrir innlyksa bónda

20200318_200627TF-GRO á Ísafjarðarflugvelli.20200318_191643Vistunum var komið fyrir í björgunarkörfu TF-GRO.20200318_193909Bærinn Skjaldfönn. Snjóalög könnuð á Vestfjörðum