Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar tók í vörslu sína púðurhólka sem límdir höfðu verið með límbandi
Síðdegis í gær barst stjórnstöð Landhelgisgæslunnar símtal frá Neyðarlínunni um að íbúi í Kópavogi hefði skotelda í fórum sonar síns sem búið var að eiga við. Sprengjusveit Landhelgisgæslunnar fór á vettvang og fann þar tíu púðurhólka úr skotköku sem búið var að líma með límbandi. Eigandinn sagði að sprengjurnar hefðu verið búnar til í fyrra. Sprengjusveitin fjarlægði hólkana af heimilinu og kom þeim fyrir í viðeigandi geymslu. Þeim verður svo eytt á næstunni.
Landhelgisgæslan brýnir fyrir fólki að sýna ítrustu varkárni í meðferð skotelda og alls ekki reyna að fikta við þá á nokkurn hátt, hvað þá að taka í sundur. Slíkt er stórhættulegt og getur valdið mjög alvarlegum slysum.
Þeim sem finna heimatilbúnar sprengjur eða flugelda sem búið er að fikta við, annað hvort á heimilum sínum eða víðavangi, er bent á að hringja í lögregluna.