Flugvél Landhelgisgæslunnar kannar ummerki eftir að tilkynnt var um stafræn neyðarboð
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar bárust nú síðdegis í dag nokkrar tilkynningar frá bæði skipum og bátum sem stödd voru annars vegar vestur af Sauðanesi og hins vegar norðaustur af Horni þess efnis að þau hefðu heyrt stafræn neyðarboð á metrabylgju. Landhelgisgæslan hóf þá þegar frekari eftirgrennslan og kom í ljós að einskis skips eða báts væri saknað á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum. Þessi neyðarboð voru auðkennalaus, það er að segja ekki merkt neinu skipi eða bát.
Til öryggis var flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF beint á svæðið til frekari eftirgrennslan. Mestar líkur eru taldar á því að um kerfisvillu í fjarskiptabúnaði sé að ræða en Landhelgisgæslan vill leita af sér allan grun.