Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi

Flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF er nú við landamæraeftirlit fyrir Frontex, landamærastofnun Evrópusambandsins. Flugvélin er staðsett á Sigonella á Sikiley og verður þar út mánuðinn. Flugvélin er afar vel útbúin fyrir eftirlit af þessu tagi en búnaður hennar gerir áhöfninni kleift að finna báta flóttafólks úr mikilli fjarlægð og kemst hún yfir stórt svæði í hverju flugi.

Allt frá árinu 2010 er Landhelgisgæslan hóf þátttöku í landamæraeftirliti á Miðjarðarhafi hafa áhafnir varðskipa og flugvélar Landhelgisgæslunnar komið með einum eða öðrum hætti að björgun ríflega 14.000 einstaklinga og eru þessi störf því afar öflugt framlag Íslands til leitar- og björgunarstarfa á syðri mörkum Schengen svæðisins sem hafa verið undir miklu álagi undanfarin ár. Þá finnur áhöfn flugvélarinnar reglulega skip og báta sem tengjast smygli á eiturlyfjum, áfengi og öðrum ólöglegum varningi. Í slíkum aðgerðum finnst oft umtalsvert magn fíkniefna sem gert er upptækt en á dögunum tók flugvélin þátt í aðgerð þar sem yfir 500 kg af maríjúana voru gerð upptæk.

Hér á myndinni má sjá áhöfnina á SIF sem nú er við störf á Sikiley.

Frá vinstri: Henning Þór Aðalmundsson stýrimaður, Friðrik Höskuldsson yfirstýrimaður, Ívar Atli Sigurjónsson flugmaður, Jakob Ólafsson flugstjóri og Magnús Örn Einarsson yfirstýrimaður.