Flutningaskip dregið að bryggju

Dráttarbátarnir Hamar og Magni drógu skipið að bryggju. Varðskipið Týr kallað út.

  • Image1_1578479544691

8.1.2020 Kl: 10:26

Flutningaskipið Francesca sem slitnaði frá bryggju í Hafnarfirði á sjötta tímanum var dregið aftur að bryggjunni á níunda tímanum í morgun. Skipið er 4000 tonn og um borð var ellefu manna áhöfn. Skipstjóri Francescu hafði samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar klukkan 5:32 í morgun og sagði að skipið ræki upp í olíugarðinn svokallaða.

Varðskipið Týr var þegar í stað kallað út sem og dráttarbátarnir Magni og Hamar. Þá voru björgunarsveitir ræstar út og lögreglu gert viðvart. Jafnframt voru liðsmenn séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar fengnir til að taka þátt í aðgerðarstjórn í Hafnarfirði. Veður var mjög slæmt á svæðinu eða Vestan 55-60 hnútar og talsverður sjór. Varðskipið Týr fylgdi Magna til Hafnarfjarðar og skýldi vegna veðurs. Varðskipið var svo til taks meðan taugum var komið yfir í flutningaskipið frá hafnsögubátunum.

Á níunda tímanum drógu Magni og Hamar skipið að bryggju og laust eftir klukkan níu var búið að binda það. Aðgerðum var þá lokið en samvinna allra viðbragðsaðila gekk afar vel.

IMG_3438Aðstæður voru krefjandi. Mynd: Garðar Rafn Nellett.

IMG_3436Áhöfnin á Tý var kölluð út. Mynd: Garðar Rafn Nellett.IMG_3441