Formennsku LHG í ACGF lokið
Georg Kr. Lárusson stýrði fundi forstjóra strandgæsla á norðurslóðum. Rússar tóku við formennsku í ráðinu til næstu tveggja ára.
16.4.2021 Kl: 14:56
Tveggja ára formennsku Landhelgisgæslu Íslands í samtökum strandgæslna á norðurslóðum lauk á fjarfundi í dag. Strandgæslustofnanir átta ríkja, Bandaríkjanna, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Kanada, Noregs, Rússlands og Svíþjóðar, mynda samráðsvettvanginn. Á fundinum ræddu forstjórarnir helstu áskoranir á norðurskautinu og upplýstu um helstu verkefni og áskoranir sinna stofnana. Georg Kr. Lárusson undirritaði, fyrir hönd hópsins, yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf strandgæslustofnananna. Í lok fundar tóku Rússar við formennsku í ráðinu og verða í forsvari fyrir samtökin næst tvö árin.
Landhelgisgæslan og hinar strandgæslurnar sjö hafa haldi upp reglubundnu samtali undanfarin tvö ár. Botninn var sleginn í formennskutíð Landhelgisgæslunnar í vikunni með umfangsmikilli æfingu sem nefndist Arctic Guardians Workshop þar sem þátttakendur þurftu að bregðast við árekstri olíubirgðaskips og farþegaskips. Samhliða fór fram ráðstefna á vegum Landhelgisgæslunnar, Háskólans á Akureyri og Norðurslóðanetsins.
Sem betur fer eru mengunarslys í norðri ekki algeng en á æfingu sem þessum gefst afar brýnt tækifæri til að skiptast á þekkingu og upplýsingum helstu sérfræðinga og strandgæslna sem í hlut eiga.
Á meðan Landhelgisgæslan gegndi formennsku var sértök áhersla lögð á að efla samstarf ríkjanna átta enn frekar vegna leitar og björgunar á svæðinu auk þess sem mengunarvarnir og umhverfismál voru sett á oddinn.
Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, óskaði rússnesku strandgæslunni velfarnaðar og þakkaði fyrir afar gott samstarf strandgæslustofnanna á undanförnum tveimur árum.
Auðunn Kristinsson, Georg Kr. Lárusson og Ásgrímur L. Ásgrímsson.
Forstjórar strandgæslanna átta.
Georg Kr. Lárusson heldur á sérstökum platta sem afhendur verður Rússum þegar tækifæri gefst.Auðunn Kristinsson, Georg Kr. Lárusson, Einar H. Valsson, Hekla Jósepsdóttir, Snorre Greil og Ásgrímur L. Ásgrímsson.