Fórnarlamba umferðarslysa minnst

Þyrla LHG tók þátt í minningarathöfn um þá 1.545 sem látist hafa í umferðinni

Í gær var haldinn alþjóðlegur minningardagur um þá sem látið hafa lífið í umferðarslysum. Fyrsta banaslysið í umferðinni hér á landi varð 28. ágúst 1915. Síðan þá hafa alls 1.545 manns dáið í umferðinni.

Athöfnin í gær fór fram við þyrlupallinn við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi. Hún hófst með því að TF-GNA, þyrla Landhelgisgæslunnar, lenti á pallinum en í áranna rás hafa þyrlur LHG flutt þangað svo marga sem hlotið hafa alvarlega áverka í umferðaslysum. Ökutækjum ýmissa viðbragðsaðila var svo stillt upp við þyrluna, til dæmis sjúkrabílum, slökkvibílum og björgunarsveitarbílum.


Athöfnin hófst með því að TF-GNA lenti á þyrlupallinum. Mynd: Samgönguráðuneytið

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, þakkaði þeim starfsstéttum sem sinna björgun og aðhlynningu þegar slys verða. Þeirra sem hafa látist í umferðinni var svo minnst með mínútulangri þögn. Þá sagði Þórir Guðmundsson, lögreglumaður á Ísafirði, frá því þegar tvíburasystir hans, Þórey Guðmundsdóttir, beið bana í umferðarslysi árið 2006.


Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, ávarpaði samkomuna. Mynd: Samgönguráðuneytið

Að athöfninni lokinni var þátttakendum boðin hressing í bílageymslu bráðamóttökunnar. Heitt kaffið yljaði viðstöddum eftir að hafa staðið úti í fallegu en köldu veðri. 


Mynd: Samgönguráðuneytið