Fóru rúmlega 50 ferðir með 15 tonn af búnaði og gröfu á gúmmíbát

Heljarmennin í áhöfn varðskipsins gengu afar rösklega til verks og áður en langt um leið var búið að koma öllum búnaði í land með bátum í alls 55 ferðum.

  • IMG_E9307

22.6.2019 Kl: 11:55

Áhöfnin á varðskipinu Tý er nú í hringferð um landið þar sem ástand er athugað og almennu viðhaldi sinnt á vitum landsins. Ferðin er í samstarfi við siglingasvið Vegagerðarinnar en ástand hátt í 50 vita er kannað að þessu sinni. Um 15-19 tonn af smíðaefni, lögnum og öðrum búnaði voru tekin með við brottför frá Reykjavík sem flytja átti að fjörunni við Hornbjargsvita ásamt gröfu. Þar standa yfir framkvæmdir við vitavarðarhús sem Ferðafélag Íslands rekur.
Upphaflega stóð til að flytja búnaðinn með þyrlu Landhelgisgæslunnar en þar sem þyrlan var vant við látin voru góð ráð dýr. Áhöfnin á varðskipinu dó ekki ráðalaus og fann leiðir til að koma búnaðinum í land með léttbátum, líkt og gert var hér áður fyrr áður en þyrlur urðu almennar á Íslandi til þessara verka.
Heljarmennin í áhöfn varðskipsins gengu afar rösklega til verks og áður en langt um leið var búið að koma öllum búnaði í land með bátum í alls 55 ferðum.  
IMG_7810Grafan komin í land eftir skrautlega ferð frá varðskipinu. 
IMG_E9307Áhöfnin með gröfuna góðu. 
IMG_7819Verkið gekk afar vel. 
64209296_2708200862559037_561031563328880640_nUm 15-19 tonn af búnaði voru tekin með frá Reykjavík.
64767388_911163455910139_394427295130976256_nBúnaðurinn um borð í varðskipinu Tý.