Freyja komin í stað Þórs og er til taks úti fyrir Grindavík
Áhöfnin á varðskipinu Freyju annast eftirlit úti fyrir Grindavík.
15.11.2023 Kl: 15:15
Áhöfnin á varðskipinu Freyju annast nú eftirlit úti fyrir Grindavík og er þar til taks ef á þarf að halda. Freyja kom á svæðið síðdegis í gær og leysti varðskipið Þór af hólmi sem hefur verið þar í viðbragðsstöðu síðan á föstudagskvöld.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í morgun til að vera í viðbragðsstöðu á meðan fólki var hleypt inn í bæinn en áhöfn þyrlunnar flaug einnig yfir Grindavík fyrir hádegi.
Þyrlusveitin hefur verið í viðbragðsstöðu frá Keflavíkurflugvelli síðustu daga en vegna vindáttar í dag var talið heppilegast að þyrlusveitin væri með viðbragðið frá Reykjavíkurflugvelli.
Frá brú varðskipsins Freyju.
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar flaug yfir Grindavík í dag.
Frá þyrlu Landhelgisgæslunnar í dag.