Fyrsta græna skrefið stígið
Í byrjun febrúar höfðu allar starfsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands lokið við að stíga fyrsta græna skrefið í ríkisrekstri.
1.3.2021 Kl: 15:13
Í byrjun febrúar höfðu allar starfsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands lokið við að stíga fyrsta græna skrefið í ríkisrekstri. Umfangsmikil innleiðing og fræðsla um umhverfismál hefur átt sér stað undanfarna mánuði í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli, um borð í báðum varðskipunum, á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og á skrifstofum LHG í Skógarhlíð 14.
Greina má aukna umhverfismeðvitund og áhuga starfsmanna á umhverfismálum á öllum starfstöðvum. Landhelgisgæsla Íslands er afar stolt af fyrsta græna skrefinu og er langt komin með vinnu við aðgerðir í átt að því næsta.
Tímamótunum var fagnað með vænni kökusneið á starfstöðvum Landhelgisgæslu Íslands.
Eiríkur Bragason, yfirstýrimaður á Þór, gæðir sér á tertunni sem þyrlusveit Landhelgisgæslunnar tók með og afhenti að lokinni þyrluæfingu með áhöfninni á Þór.
Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, fær sér sneið.
Hekla Jósepsdóttir er hluti af umhverfisráði Landhelgisgæslunnar sem unnið hefur öflugt starf við innleiðingu skrefanna.