Gæslan á ferð og flugi um helgina
Þyrlur Landhelgisgæslunnar og varðskipið Týr með í hátíðarhöldum sjómannadagshelgarinnar
Á sunnudaginn verður sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur víða um land og venju samkvæmt lætur Landhelgisgæsla Íslands sitt ekki eftir liggja í hátíðarhöldunum helgarinnar.
Varðskipið Týr verður í Vestmannaeyjum um helgina og verður hluti af hátíðardagskránni þar. Eyjamönnum og gestum þeirra gefst kostur á að skoða skipið eftir hádegi á laugardaginn og njóta leiðsagnar áhafnarinnar. Sjómælingabáturinn Baldur verður í Stykkishólmi.
Þá verða þyrlur Landhelgisgæslunnar á ferð og flugi um helgina og er áformað að þær komi víða við þar sem sjómannadeginum er fagnað. Á laugardaginn er gert ráð fyrir að þyrlurnar heimsæki Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjar, Skagaströnd, Bolungarvík og Flateyri. Á sunnudaginn verða þær svo í Stykkishólmi, á Akranesi, Hafnarfirði og Reykjavík. Þetta er þó háð því að engin aðkallandi verkefni komi upp.
Að venju tekur Landhelgisgæslan þátt í hátíðarhöldunum í Reykjavík á sjómannadaginn. Starfsfólk LHG stendur heiðursvörð við árlega minningarathöfn um drukknaða og týnda sæferendur við minnisvarðann Minningaröldur sjómannadagsins í Fossvogskirkjugarði og sækir svo sjómannamessu í Dómkirkjunni.
Landhelgisgæslan óskar sjómönnum til hamingju með daginn.
Myndin sem fylgir þessari frétt er frá hátíðarhöldum á Flateyri á sjómannadeginum 2009 og hana tók Gunnar Örn Guðmundsson, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni.