Gert ráð fyrir 4,5 metra flóðhæð í Reykjavík á morgunflóðinu í fyrramálið
Þá gera ölduspár ráð fyrir nokkuð þungri suðvestan öldu með suðurströndinni á fimmtudag.
20.2.2023 Kl: 10:43
Í dag er nýtt tungl og verður stórstreymt á morgun, þriðjudag. Í sjávarfallatöflum sem Landhelgisgæslan gefur út er gert ráð fyrir 4,5 metra flóðhæð í Reykjavík á morgunflóðinu í fyrramálið, sem er með hærra lagi. Veðurspár gera ráð fyrir nokkuð skaplegu veðri allra næstu daga og er því talið að áhlaðandi verði ekki mikill. Norðvestan strekkingur gæti þó orðið úti fyrir norðausturlandi á miðvikudag og á fimmtudag má gera ráð fyrir suðvestan strekkingi á miðum sunnan og suðvestanlands. Þá gera ölduspár ráð fyrir nokkuð þungri suðvestan öldu með suðurströndinni á fimmtudag.