Göngumönnum bjargað á hálendinu

Mennirnir létu fyrir berast í tjaldi austur af Hofsjökli vegna veðurs

Stjórnstöð Landhelgisgæslunar barst um hádegisbilið í gær beiðni frá lögreglunni á Akureyri um aðstoð þyrlu vegna tveggja göngumanna á ferð austur af Hofsjökli. Illviðri var á þessum slóðum og því létu mennirnir fyrir berast í tjaldi. Þeir voru hins vegar orðnir kaldir og þrekaðir og því hjálparþurfi. Þeir gátu gefið upp staðsetningu sína í gegnum gervihnattasíma sem þeir höfðu meðferðis. Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru einnig kallaðar út vegna málsins.

TF-LIF fór í loftið frá Reykjavík laust fyrir klukkan eitt. Ekki leið á löngu þar til aðstæður á flugleiðinni urðu mjög erfiðar, mikil ísing í lofti og niðdimm él þannig að skyggni var lítið sem ekkert. Þegar þyrlan nálgaðist staðinn þar sem mennirnir voru var mjög þungbúið, þoka og skafrenningur og nánast ekkert skyggni. Áhöfnin ákvað því að lenda þyrlunni til að meta aðstæður, fá upplýsingar um veður og stöðu björgunarsveita.

Á meðan létti örlítið til og því var hægt að halda ferðinni áfram. Þegar áhöfnin sá svo glufu í skýjahulunni tókst að lenda nærri tjaldi göngumannanna. Þeir komu svo gangandi á móti sigmanni og lækni þyrlunnar sem aðstoðuðu þá svo um borð. Þyrlan flaug með mennina til Akureyrar þar sem lögregla tók á móti þeim á flugvellinum.

Eins og áður segir voru aðstæður til leitar á hálendinu afar erfiðar í gær vegna slæms skyggnis og hvassviðris. Því reyndi mikið á þyrluna en ekki síður áhöfnina í þessum leiðangri. Ferðalög um hálendið á þessum árstíma eru áhættusöm enda allra veðra von.

Í þessu sambandi má rifja upp að í lok síðasta árs voru þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir einnig kallaðar út vegna göngumanns sem ekki treysti sér lengra vegna veðurs á hálendinu. Hann var þá á mjög svipuðum slóðum og tvímenningarnir í gær. Í báðum þessum tilvikum höfðu ferðalangarnir haldið af stað þvert á ráðleggingar heimamanna og lögreglu.