Háþróuð hafrannsóknatæki sjósett
Bandarísk haffræðistofnun í samstarfi við Landhelgisgæsluna og fleiri íslenskar stofnanir
Öflugir vindar, mikil ölduhæð og sterkir hafstraumar eru helstu ástæður þess að bandaríska haffræðistofnunin Scripps valdi hafssvæðið í kringum Ísland til rannsóknarverkefna með háþróuðum tæknibúnaði sínum. Vonast er til að niðurstöðurnar nýtist meðal annars við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga.
Scripps-stofnunin, sem er hluti af Kaliforníuháskóla í San Diego, hefur gert sérstakan samstarfssamning við Landhelgisgæslu Íslands, Hafrannsóknastofnun og Háskóla Íslands vegna þessa verkefnis. Drög voru lögð að samstarfinu síðastliðið haust.
Sjómælingabáturinn Baldur var notaður til að sjósetja búnaðinn fyrir skemmstu.
Fulltrúar Scripps-stofnunarinnar voru hér á landi í síðustu viku og fóru þá með Baldri, sjómælingabát Landhelgisgæslunnar, út fyrir Garðskaga. Þar voru sjósett öldurekdufl og tveir háþróaðir rannsóknanökkvar (e. wave gliders) sem næstu misseri mæla ölduhæð, hafstrauma, loftþrýsting og hitastig á hafsvæðinu. Hægt verður að lesa af mælitækjunum, sem eru sólarknúin, í rauntíma því þau senda stöðugt frá sér upplýsingar.
Einnig hafa nokkur öldureksdufl verið sjósett frá áramótum af varðskipunum en fyrirhugað er að slíkum duflum verði komið í sjó á næstunni af varðskipum, skipum Hafrannsóknarstofnunar, jafnvel millilandaskipum og flugvél og þyrlum Landhelgisgæslunnar. Þau eru lítil og létt og á sjófarendum ekki að stafa hætta af þeim.
Frá sjósetningu rannsóknanökkvanna. Mynd: Guðmundur Birkir Agnarsson.
Dr. Eric Terrill, vísindamaður við Scripps-stofnunina segir að mæling á stórum öldum sem myndast í óveðri geti reynst vandasöm vegna þess hve erfitt er að vera á vettvangi á réttum stað og á réttum tíma. „Greining á öldufari heimshafanna sýnir að hafið í kringum Ísland er tilvalið sem náttúruleg rannsóknarstofa til að kanna veður og sjólag eins og það gerist verst. Á veturna er mikil ölduhæð nánast viðvarandi ástand.“
Hafsvæðið sem rannsóknanökkvarnir starfa á. Kort: Sjómælingasvið Landhelgisgæslu Íslands.
Vonast er til að þessar rannsóknir skili niðurstöðum sem geta nýst með margvíslegum hætti. Fyrir sjófarendur og ýmsar stofnanir, þar á meðal Landhelgisgæsluna, er mikilvægt að hegðun hafstrauma og mismunandi sjólag á Íslandsmiðum sé þekkt til hlítar, meðal annars til bæta veðurspár. Þar með hægt að tryggja betur öryggi sjófarenda og skipuleggja leit og björgun með markvissari hætti. Þá vænta vísindamenn Scripps-stofnunarinnar þess að þeir fái gleggri mynd af samspili sjávar og andrúmsloftsins en það hefur lykilþýðingu við spár um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra.
Scripps-stofnunin segir frá verkefninu á heimasíðu sinni. Read about the project on the website of Scripps Institution of Oceanography.