Hundrað ára sjókort
Fyrir ríflega hundrað og tveimur árum, 4. júní 1913, birtist stutt frétt í blaðinu Vísi um að til stæði að rannsaka innsiglinguna til Salthólmavíkur og Króksfjarðarness. Fréttin bar yfirskriftina „Hafnarmælingar vestra“ og var svohljóðandi: „Í Kaupmannahafnarblaðinu National Tidende er sagt frá því 17. f. m., að ráðnir sjeu af landstjórn Íslands Premierlöjtnan Bistrup, 2 undirforingjar og 2 dátar til þess að rannsaka innsiglinguna til Salthólmavíkur í Dalasýslu og Króksfjarðarnes í Barðastrandarsýslu. Ætluðu þeir að leggja af stað 24. s. m. (með Botníu). Við rannsóknir þessar hafa þeir félagar mótorbát og róðrarbát og fá hjer mótorista og annan mann kunnugan á þeim stöðum, sem mæla á. Þeir búast við að hafa lokið þessu verki í Septemberlok. Landsjóður kostar verkið“.
Auglýsing í Vísi 26. júní 1918. |
Tveimur árum seinna, árið 1915, var sjókort nr. 275 gefið út af „
det kongelige Sökort-Arkiv“. Heiti kortsins var
Indsejling til Skardstöd, Salthólmavík og Króksfjardarnes og það kostaði 3 kr.
Kort nr. 275 þegar það kom út 1915. Seinna fékk kortið íslenskt heiti og númer. |
Á kortinu kemur fram að það sé gert eftir mælingum sem gerðar voru af H. Bistrup 1913 og 1914 samkvæmt ákvörðun Alþingis („Kortet er udarbejdet efter Opmaaling foretaget í Henhold til Althingets Beslutning, af Premierlöjtnant í Flaaden samt efter Generalstabens Kort.“)
Kortið var endurprentað hjá Íslenzku sjómælingunum 1961. Þá hafði númeri og heiti kortsins verið breytt. Breiðafjörður – Norðurflói, nr. 44 hét það þá og gerir enn. Þetta er elsta sjókortið af þeim ríflega 80 sjókortum sem Landhelgisgæslan gefur út nú um stundir.
Kortið er það eina sem eftir er sem á eru teiknaðar myndir af landmiðum og það er annað tveggja sjókorta sem enn eru í notkun frá dögum danskrar sjókortagerðar við Ísland. Bæði eru af Breiðafirði.
Dæmi um teikningar af landmiðum sem prentaðar eru til hliðar við kortið. |
Sjókortið er barn síns tíma. Strandferðaskipin sem höfðu viðkomu í Salthólmavík og Króksfjarðarnesi eru löngu horfin af sjónarsviðinu. Verslunarstaðirnir sömuleiðis. En dýptarmælingarnar sem gerðar voru fyrir meira en 100 árum og kortið byggir á standa fyrir sínu sem slíkar þótt þær uppfylli ekki nútímakröfur um þéttleika dýptarmælinga.