Íslendingar lögðu Kanadamenn í íshokkíleik

Íslenska íshokkílandsliðið og lið kanadískrar flugsveitar sem sinnir loftrýmisgæslu öttu kappi

Það er kunnara en frá þurfi að segja að íshokkí er þjóðaríþrótt Kanada og því ætti ekki að koma á óvart að liðsmenn kanadísku flugsveitarinnar sem sinnir loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins um þessar mundir hér við reimi á sig skautana eftir því sem við verður komið. Sveitin hefur æft með íslensku íþróttafólki, þar á meðal liði sem meðal annars er skipað starfsfólki Slökkvliðs höfuðborgarsvæðsins og Landhelgisgæslunnar. 

IMG_8973--Large-

Í gærkvöld fór svo fram sannkallaður stórleikur þegar Kanadamennirnir léku vináttuleik við íslenska íshokkílandsliðið í Egilshöll.Kanadamenn skoruðu fyrstu tvö mörkin í leiknum en þá hættu Íslendingar að sýna gestrisni og skoruðu þrjú mörk í röð. Leikurinn hélst svo jafn í 4-4 en þá stungu Íslendingar Kanadamenn af. Lyktaði leiknum með stórsigri íslenska liðsins, 16-7. Starfsfólk Landhelgisgæslunnar í Keflavík fjölmennti á viðburðinn sem og liðsmenn kanadísku flugsveitarinnar.

IMG_8966--Large-

Í síðastliðinni viku buðu Kanadamennirnir flugnemum í flugskóla Keilis að koma í heimsókn í flugskýli 831 á Keflavíkurflugvelli í þeim tilgangi að skoða og fræðast um CF-188 Hornet-þoturnar sem notaðar eru við loftrýmisgæsluna. 

IMG_8855--Large-

Nemendurnir spurðu margra spurninga sem kanadísku flugmennirnir svöruðu eftir bestu getu. Þá fengu nemarnir að líta í stjórnklefann og skoða þann búnað sem flugmennirnir klæðast. Ekki nóg með það heldur var einn þeirra klæddur upp í búninginn svo hópurinn fengi nasaþefinn af því hvernig er að sitja við stýrið í herþotu. Gerður var góður rómur að þessari heimsókn sem þótti vel heppnuð í alla staði. 

IMG_8870-1