Rannsaka hafísröndina á Grænlandssundi

Íslenskur prófessor við NPS-háskólann í Monterey í Kaliforníu stýrir rannsóknum við Ísland

Hafliði Jónsson, prófessor við Naval Postgraduate School, háskóla bandaríska sjóhersins í Monterey í Kaliforníu, sinnir næstu þrjár vikurnar rannsóknum á hafísröndinni á Grænlandssundi með sérútbúinni rannsóknaflugvél sem gerð verður út frá Ísafirði. Twin Otter-flugvélin er í eigu bandaríska sjóhersins en NPS-háskólinn rekur hana. 

Rannsóknarverkefnið er einfaldlega kallað „Ísrönd“ (e. Ice Edge) og tekur einungis til beinnar rannsóknar, þ.e. opin rannsókn þar sem gögnin verða tiltæk rannsóknarheiminum. Flugvélin mælir orkuskipti milli hafs og lofts við ísröndina. Til dæmis verður vindorkan mæld, þ.e. áhrif vindsins á ísröndina og varmaorkan, en það er geislunarmæling uppstreymis varma úr sjó í loft og sólaorku að ofan. Þá verða mæld raki og agnir (m.a. súlfat) í andrúmsloftinu sem hafa áhrif á til dæmis skyggni. Loks má nefna að innrauðar myndavélar verða notaðar við rannsóknina á ísröndinni. Þær voru settar um borð að frumkvæði Björns Erlingssonar hafeðlisfræðings á Veðurstofu Íslands. Björn, sem starfar með Háskólasetri Vestfjarða, vinnur úr gögnunum þegar þau liggja fyrir.  

Twinotter2
Hafliði Jónsson sýnir flugvél og tæki. Sjá má t.d. fimm göt í nefinu á flugvélinni til vindmælinga og eru mælingarnar leiðréttar í samræmi við hallann á vélinni (gírómælingar). Svo má sjá pípu fyrir loftinntök og ofan á vélinni er svokallaður stabilized platform for solar radiometers (f. sólargeislamælingar). Mynd: Snorre Greil, LHG.

Hafliði hefur verið búsettur í Carmel í Kaliforníu síðastliðin fjörutíu ár og starfað hjá NPS-háskólanum undanfarna tvo áratugi. Hafliði vann á tímabili hjá Veðurstofu Íslands en kemur ekki oft hingað til lands lengur. Hann kveðst því alsæll með þetta tækifæri til að heimsækja Ísland, fjölskyldu og vini.

Landhelgisgæslan hefur aðstoðað við undirbúning verkefnisins og verið sex manna áhöfn flugvélarinnar innan handar. Má í þessu samhengi nefna samhæfingu og upplýsingagjöf við þá sem að verkefninu koma hér á landi. Áhöfn flugvélarinnar gerði flugvélina klára í verkefnið í flugskýli Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli í vikunni. Í samtali við Snorre Greil, starfsmann LHG, þakkaði flugstjórinn fyrir góðar viðtökur og gott samstarf við alla þá aðila sem þeir vinna með vegna verkefnisins. 

Verkefnið er kostað af Rannsóknastofnun bandaríska sjóhersins (Office of Naval Research). 

Twin Otter-rannsóknaflugvél bandaríska sjóhersins og áhöfn. Frá vinstri: Anthony Bucholtz, vísindamaður; Bryce Kujat, flugmaður; Jon Norregard, aðstoðarflugmaður; Gregory Cooper, flugvirki; Roy Woods, verkefnisstjóri og Hafliði Jónsson, prófessor. Mynd: Snorre Greil, LHG.