Jólin komin um borð í Tý

Jólelegt um borð í varðskipinu.

  • Ahofnin-vardskipinu-Ty-desember-2020

17.12.2020 Kl: 13:25

Á þriðja sunnudegi í aðventu kom áhöfnin á varðskipinu Tý saman eftir aðskilnað og hólfaskiptingu fyrstu daga úthaldsins. Áhöfn skipsins tók saman stuttan pistil sem birtist hér:  ,,Eftir skimun, aðskilnað og auknar sóttvarnir síðustu daga, með tilheyrandi hólfaskiptingum, grímunotkun á milli deilda, gátum við loksins komið öll saman á ný og átt saman góða stund.Dagurinn var með hefðbundnu sniði, þ.e.a.s. okkar sniði. Þegar kvölda tók klæddu menn sig upp í betri fötin og mættu til kvöldverðar eða sérstaks jólahlaðborðs þar sem þau Rannveig og Kalli fóru á kostum eins og þeirra er venjan og stækkuð borð svignuðu undan jólakræsingum ýmiskonar. Til að gera svona stóran dag að veruleika hjálpast allir að við undirbúning og frágang.

Til að brjóta aðeins upp þá var falinn pakki í skipinu rétt fyrir mat og öll áhöfnin fór í pakkaleit með frjálsum aðferðum, hann fannst að lokum eftir leiðsögn frá skipherra úr eftirlitsmyndavélarkerfi skipsins. Við upphaf matarins var svo annar pakki til viðbótar dreginn út, en hver og einn er með sitt fasta númer sem dregið var upp úr hatti skipherra í beinni útsendingu í kallkerfi skipsins. Jólagjöfum áhafnar frá Landhelgisgæslunni var jafnframt deilt út á sama tíma og þökkum við kærlega fyrir okkur.Eftir vaktaskipti kvöldvaktarinnar hófst svo hið árlega jólabingó og fóru hinar ýmsu kynjaverur að mæta í borðsalinn svo sem venjan er og vaktirnar tóku þátt í gegnum myndsíma. Spilaðar voru 12 umferðir um veglega vinninga, sem okkur bárust úr ýmsum áttum.

Kunnum við velunnurum okkar, fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu okkur til þessa flottu vinninga hinar bestu þakkir fyrir.

Varðskipið Týr heldur til hafnar á næstu dögum og taka þá félagar okkar á Þór við vaktinni og við förum heim í jólafrí.

Þetta er ekki alveg búið, þannig að við hlíðum Víði og allt það, þar sem við erum öll almannavarnir og mætum sterk til leiks á nýju ári.

Áhöfnin á varðskipinu Tý þakkar samfylgdina á árinu sem er að líða og sendir landsmönnum öllum, fjölskyldum, samstarfsfélögum og vinum óskir um gleðileg jól og farsæld á komandi ári."

Meðfylgjandi myndir tók Guðmundur St. Valdimarsson.
Jolabingo-3-3-
Litlu-jolin-og-jolabingo-19-
Litlu-jolin-og-jolabingo-32-
0-Gardar-fann-pakkann
Litlu-jolin-og-jolabingo-18-
Litlu-jolin-og-jolabingo-3-1-
Litlu-jolin-og-jolabingo-8-
Jolabingo-4-
Jolabingo-3-4-
Jolabingo-3-1-
Jolabingo-2-Jolabingo-3-2-0-Tinna-fekk-pakkann-sem-var-dreginn-ut