Jón Páll sjötugur

Jón Páll Ásgeirsson , stýrimaður, lýkur farsælum ferli á 70 ára afmælinu

  • Jon-Pall

2.7.2020 Kl: 11:00

Jón Páll Ásgeirsson, stýrimaður hjá Landhelgisgæslunni, fagnar sjötugsafmæli í dag. Þar með lýkur afar farsælum ferli Jóns Páls hjá Landhelgisgæslunni en hann hefur starfað hjá stofnuninni í alls 35 ár og verið tengdur sjómennsku í hálfa öld. Landhelgisgæslan óskar Jóni Páli innilega til hamingju með stórafmælið og þakkar honum kærlega fyrir vel unnin störf í þágu Gæslunnar. Í Morgunblaðinu í dag var einstaklega skemmtilegt viðtal við Jón Pál sem er birt hér með góðfúslegu leyfi MBL.

Kátur sjóari í hálfa öld

Jón Páll Ásgeirsson lýkur farsælum ferli á 70 ára afmælinu

Sjómennska hefur verið lifibrauð Jóns Páls Ásgeirssonar í yfir hálfa öld, en hann lýkur farsælum samtals 35 ára ferli hjá Landhelgisgæslunni í dag, á 70 ára afmælinu. „Ævintýri,“ segir stýrimaðurinn um sjómennskuna, en hann stígur áfram ölduna með Jóhanni, bróður sínum. Þeir stunduðu grásleppuveiðar á trillunni Brana RE frá Akureyjum á Breiðafirði í yfir 30 ár, hættu því 2015, en nota bátinn til sjóstangaveiði og gamans. „Við höldum áfram að njóta lífsins,“ segir afmælisbarnið, sem er í Akureyjum á þessum tímamótum.

Jón Páll bjó í Stykkishólmi til sex ára aldurs, fór í Iðnskólann og náði sér í meistararéttindi í netagerð. „Pabbi var netagerðarmaður og ég vann mikið í netunum sem polli,“ segir hann. „Haustið 1969 plataði Jón Sigurðsson, vinur minn, mig í síldartúr í Norðursjóinn sem háseti á nótaskipinu Reykjaborg RE 25 og ég hef verið sjóari síðan.“ Hann var á síld og loðnu og rifjar upp að hann hafi farið á þorsknót síðasta árið sem hún var leyfð. „Þorskdrápið var svakalegt, við fengum nær 600 tonn af stórum hrygningarþorski á sex dögum, en síðan var nótin bönnuð.“ Þorskastríð og björgunarstörf.

Eftir þrjú ár á Reykjaborginni fór Jón Páll í Stýrimannaskólann, sigldi á skipum Eimskipafélagsins í fríum og lauk farmannaprófi 1975. 2. júlí var hann skráður á varðskipið Ægi og var hjá Gæslunni næstu fimm árin, þar af lögskráður hvern einasta dag 1976. „Þegar ég byrjaði var efnahagslögsagan 50 mílur og þá vorum við að eltast við Þjóðverja innan lögsögunnar, klipptum til dæmis vörpuna aftan úr einum eftir langa eftirför og skutum púðurskotum að öðrum.“ Efnahagslögsagan var færð út í 200 mílur 15. október 1975 og þá hófst þriðja og síðasta þorskastríðið sem stóð til næsta vors. „Þá var harðasta baráttan,“ segir Jón Páll, sem fór á Baldur í janúar 1976. „Baldur var ansi sjúskaður eftir þessi átök,“ minnir hann á og getur þess sérstaklega þegar gat kom á síðu freigátu í árekstri skipanna. „Sjóliði bjargaði málverki af drottningunni sem var á leið út um gatið ásamt fleiri hlutum og fékk heiðursmerki fyrir!“

Jón Páll var á nótabátum í áratug, byrjaði á Eldborg HF og endaði á Sigurði RE. Haustið 1989 var engin loðna og hann fór að taka túr og túr sem stýrimaður hjá Gæslunni, meðal annars á Fokker-vél hennar í um sex vikur eftir áramótin. „Þá fór ég á loðnu á Sigurði og við fengum 18.000 tonn á einum mánuði, en síðan hef ég alfarið verið hjá Gæslunni.“

Margs er að minnast á undanförnum áratugum. „Ég hef lent í ýmsu,“ segir Jón Páll og nefnir að fiskveiðieftirlit fyrir Evrópusambandið í Miðjarðarhafinu, á Flæmska hattinum og í Síldarsmugunni sé eftirminnilegt. „Þegar við vorum í Miðjarðarhafinu var yfir 40 gráðu hiti, mikill raki og engin loftkæling.“ Tveggja mánaða úthald við aðstoð flotans í Barentshafi hafi líka tekið á. „Spara þurfti vatnið og til dæmis var sjór settur í salernin.“ Eitt sinn hafi Týr verið leigður til að draga 3.000 tonna dráttarbát frá Nýfundnalandi til Danmerkur. „Skrúfur bátsins voru ekki fjaðraðar og við vorum mánuð á siglingu.“

Áhafnir Óðins og Ægis fengu það erfiða verkefni að aðstoða dráttarbát sem var með flotkví í togi til Hafnarfjarðar 1998. Jón Páll segir að beita hafi þurft mikilli útsjónarsemi í slæmu veðri og þakka megi fyrir að ekki hafi farið illa, en þeir Vilbergur Magni Óskarsson, skipherra á Óðni, hafi skipulagt aðgerðina við að taka kvína í tog. „Ekkert mátti út af bera.“ Siglingin með hlera fyrir gluggum á Óðni í brjáluðu veðri frá Grundarfirði til Flateyrar með björgunarfólk eftir snjóflóðið 1995 og sú sýn sem við blasti í þorpinu situr í Jóni Páli. „Erfitt var að horfast í augu við rústirnar, reynsla sem gleymist aldrei. Þetta var átakanlegt.“

Bræðurnir hafa lengi notað sumarfríin til að gera upp húsakost í Akureyjum og Jón Páll sér fram á góðar stundir. „Þar eru engar áhyggjur,“ segir stýrimaðurinn sem hefur að mestu unnið á aðgerðasviði Gæslunnar undanfarin ár. „Mjög góður vinnuandi er hjá Gæslunni, ég hef starfað með frábæru og skemmtilegu fólki og á eftir að sakna þess.“

Thorvaldur-eg-Oli-Valur-Gudmundur_1593687831284Um borð í varðskipinu Tý

Bjorn-Haukur-Jon-Pall-Halldor-Almarsson-og-oth-messiJón Páll Ásgeirsson, fyrir miðju, um borð í varðskipinu Tý á áttunda áratugnum.2012-06-03-Gisli-og-Jon-PallGísli Valur Arnarson og Jón Páll Ásgeirsson um borð í Tý.

JAP