Kanadískur ísbrjótur til sýnis í Reykjavíkurhöfn

Pierre Radisson er hér á landi í tengslum við alþjóðlega leitar- og björgunaræfingu

Í næstu viku fer fram við Ísland alþjóðlega leitar- og björgunaræfingin „Arctic Guardian 2017“. Samtök strandgæslustofnana norðurslóðaríkjanna átta, Arctic Coast Guard Forum, standa fyrir æfingunni og er hún sú fyrsta sem haldin er undir merkjum þeirra.

Í tengslum við æfinguna koma nokkur erlend skip og loftför hingað til lands, þar á meðal kanadíski ísbrjóturinn Pierre Radisson. Áhöfnin býður almenningi að skoða skipið á morgun, sunnudaginn 3. september. Skipverjar verða um borð og segja frá því sem fyrir augu ber.

 Ísbrjóturinn Pierre Radisson er við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn, fyrir aftan tónlistarhúsið Hörpu þar sem varðskip Landhelgisgæslu Íslands eru yfirleitt bundin við bryggju.

Skipið verður opið almenningi á eftirfarandi tímum á morgun, sunnudag: 8:30-12:00, 13:00-16.30 og 17:30-19:30


Mynd: Kanadíska strandgæslan