Kortakaka með kaffinu

Mikilvægum áfanga fagnað með kortaköku

  • 20190108_094150

8.1.2019 Kl: 16:35

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru vanari því að lesa úr sjókortum og útbúa þau en að leggja sér þau til munns. Einhvern tímann er allt fyrst og í morgun var sjókort af Akranesi borðað með bestu lyst á skrifstofu Landhelgisgæslunnar í Skógarhlíð. Tilefnið var ærið enda kom ný útgáfa af sjókortinu af Akranesi út rétt fyrir jólin og sömuleiðis var því fagnað að um þessar mundir er yfirfærslu síðasta sjókortsins yfir í nýjan hugbúnað að ljúka. Skemmst er frá því að segja að sjókortið af Akranesi er ekki lengur til í kökuformi.

Undanfarin tvö ár hefur sjómælingadeild Landhelgisgæslunnar unnið að stóru verkefni sem falist hefur í því að færa öll íslensku sjókortin sem eru um 80 talsins yfir í nýjustu útgáfu CARIS kortahugbúnaðarins sem notað er við gerð sjókortanna.  

Vinnan hefur falist í því að sérhvert kort þarf að endurgera að stóru leyti í nýja hugbúnaðinum, CARIS Paper Chart Composer. Um þessar mundir er vinnu við yfirfærslu síðasta sjókortsins að ljúka. Þess vegna var ákveðið að láta útbúa kökuna glæsilegu.

Einnig kom út ný útgáfa af sjókortinu af Akranesi rétt fyrir jólin. Það eru verulegar breytingar á kortinu hvað dýptarupplýsingar varðar. Áhöfn sjómælingaskipsins Baldurs mældu verulegan hluta hafsvæðisins með fjölgeislamæli í september s.l. og koma þær í stað mælinga breska hernámsliðsins frá árinu 1940. Aðrar breytingar á kortinu eru að leiðarljós fyrir aðsiglingu til Akraness voru endurnýjuð. Sett voru upp svokölluð stefnuvirk leiðarljós sem eru það nýjasta sem tíðkast í heimi leiðarljósa.

20190108_101202Kortakakan góða.SV-56_og_56aMynd af bresku mælingunni frá 1940.K364_Akranes_2018_Multibeam_allt

 Nýjasta mælingin.