Landhelgigsæslan prófar lausn sem byggir á gervigreind

26. október, 2023

Prófanir fóru fram hér á landi í síðustu viku.

26.10.2023 Kl: 15:15

Landhelgisgæslan hefur undanfarin tvö ár tekið þátt í
nýsköpunarverkefninu AI-ARC. Markmiðið með verkefninu er að auka stöðuvitund og
árvekni á sjó en verkefnið er fjármagnað af nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins,
Horizon 2020. Að því starfa 20 samstarfsaðilar frá 12 Evrópulöndum.

AI-ARC lausnin samanstendur af ýmsum stafrænum möguleikum og
er frekar talað um umhverfi heldur en kerfi, en lausnin miðar að því að auka
sjálfvirkni við eftirlit, löggæslu, leit og björgun á norðurslóðum þar sem
gervigreind er nýtt.

Tilgangur verkefnisins er að útbúa nýstárlegt, öflugt,
skilvirkt og notendavænt upplýsingaumhverfi þangað sem unnt er að deila gögnum
og upplýsingum um skipaumferð og annað sem sjónum tengist. Þeir stafrænu
möguleikar sem mynda þetta upplýsingaumhverfi sjá svo um að greina gögnin. Sem
dæmi, þá geta þeir greint ísjaka út frá gervitunglamyndum og ef skip nálgast þá
er hlutaðeigandi aðilum, sem jafnframt eru notendur umhverfisins gert viðvart.

Í ár hefur það gerst tvívegis að skip hafi siglt á ísjaka,
en það gerðist suður af Grænlandi og í Grænlandssundi. Þjónustunni er ætlað að
draga úr líkum á óhöppum sem þessum og auka öryggi sjófarenda.

Þetta stafræna umhverfi mun líka auðvelda samskipti milli
björgunarmiðstöðvar og sjófarenda. Sem dæmi væri unnt að deila leitarsvæðum og
leitarferlum myndrænt milli björgunarmiðstöðvar og eininga t.d. fiskiskip eða flutningaskip,
sem kæmu til aðstoðar við leit og björgun.

Í sl. viku voru fulltrúar þeirra samstarfsaðila sem að
verkefninu koma við prófanir á þessum þjónustum sem fóru fram um borð í skipum
og stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Prófanirnar gengu vonum framar og lausnin lofar
svo sannarlega góðu.

Landhelgisgæslan þakkar öllum samstarfsaðilum sem að
verkefninu komu fyrir gott og innihaldsríkt samstarf.

Image00002_1698333408299Hluti hópsins um borð í varðskipinu Þór þar sem prófanir fóru m.a fram.

Image00006_1698333408327Um borð í varðskipinu Þór. 

Image00001_1698333408292Hópmynd að loknum vel  heppnuðum prófunum. 

Image00004_1698333407875Snorre Greil, verkefnastjóri á aðgerðasviði Landhelgisgæslunnar, um borð í varðskipinu Þór. 

Image00003_1698333407666Um borð í Þór.