Landhelgisgæslan 90 ára í dag
Landhelgisgæsla Íslands fagnar 90 ára afmælisdegi sínum í dag, 1. júlí 2016.
Stofndagur Landhelgisgæslu Íslands er 1. júlí 1926. Skömmu áður kom til landsins fyrsta varðskipið sem smíðað var fyrir Íslendinga. Það var gufuskipið Óðinn, 512 brúttólesta skip, vopnað tveimur 57 mm fallbyssum. Íslensk landhelgisgæsla hefst þó fyrr eða upp úr 1920 og þá með leiguskipum. Ávallt síðan hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar gætt hagsmuna þjóðarinnar við verndun fiskimiðanna og björgunarstörf, stundum í kröppum dansi, eins og alkunna er. Þeir hafa einnig ávallt verið reiðubúnir til þess að aðstoða sjófarendur og fólk úti á landsbyggðinni, oft á tíðum við erfiðustu aðstæður þegar öll sund hafa virst lokuð. Að auki hafa þeir lögum samkvæmt gegnt hinum margvíslegustu þjónustuhlutverkum við strendur landsins og á landgrunninu.
Hin fræknu afrek Landhelgisgæslumanna í Þorskastríðunum verða ávallt í minnum höfð en hér má sjá nánari umfjöllun um sögu Landhelgisgæslunnar í máli og myndum http://www.lhg.is/sagan/
Á þessum 90 árum hefur hlutverk Landhelgisgæslunnar aukist og breyst og nú ber Landhelgisgæslan einnig ábyrgð á framkvæmd varnartengdra verkefna sem hafa eflt getu Landhelgisgæslunnar til muna. Þá er vert að minnast þeirra afreka sem starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa unnið á Miðjarðarhafi síðastliðin ár við björgun þúsunda mannslífa.
Landhelgisgæslan er í dag vel tækjum búin en bæði varðskipið Þór og eftirlits- og björgunarflugvélin TF-SIF hafa sannað sig með afgerandi hætti. Þá er nú unnið að endurnýjun þyrluflota Landhelgisgæslunnar sem verður mikið framfaraskref. Landhelgisgæslan er þó ekkert án starfsmanna sinna sem leggja allan sinn metnað í að leysa úr þeim verkefnum sem þeim er treyst fyrir. Á þessum 90 ára afmælisdegi Landhelgisgæslunnar þökkum við landsmönnum það traust sem þeir hafa sýnt Landhelgisgæslunni og munum við áfram leggja metnað okkar í að vera til taks - með öryggi og fagmennsku að leiðarljósi.
Landhelgisgæslan mun fagna afmælisárinu með margvíslegum hætti en í dag segjum við....Til hamingju með afmælið Landhelgisgæsla Íslands og landsmenn allir og ÁFRAM ÍSLAND!!!