Landhelgisgæslan á Framadögum

Starfsemi og atvinnumöguleikar kynnt í Háskólanum í Reykjavík

Samtökin AIESEC gangast á hverju ári fyrir Framadögum en megintilgangur þessa viðburðar er að gefa ungu fólki á Íslandi tækifæri til þess að komast í kynni við íslenskt atvinnulíf og önnur fjölbreytt tækifæri víðs vegar um heiminn.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir kynntu starfsemi sína á Framadögum 2018 sem fram fóru í Háskólanum í Reykjavík í dag og þar á meðal var Landhelgisgæsla Íslands. 

Fjöldi háskólanema og annarra heimsótti kynningarbás Landhelgisgæslunnar til að fræðast um starfsemina og atvinnumöguleika hjá stofnuninni. Eitt helsta aðdráttaraflið var útbúnaður frá flugdeild og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar, til dæmis hjálmar og sprengibúnaður af ýmsu tagi. Tekið skal fram að búnaðurinn var óvirkur og því hættulaus með öllu.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, flutti setningarávarp á Framadögum og heimsótti síðan þau fyrirtæki og stofnanir sem kynntu starfsemi sína. Forsetinn kom að sjálfsögðu við í Landhelgisgæslubásnum og heilsaði upp á mannskapinn.

Landhelgisgæslan er alltaf á höttunum eftir fjölhæfu og hæfileikaríku fólki enda er bakgrunnur starfsfólksins í meira lagi fjölbreyttur. Þess vegna eru viðburðir eins og Framadagar kærkomið tækifæri fyrir Landhelgisgæsluna til að sýna hvað stofnunin hefur upp á að bjóða fyrir ungt og metnaðarfullt fólk.