Landhelgisgæslan fær hjartahnoðtæki frá Kiwanis

Í dag gaf Styrktarsjóður Kiwanisumdæmisins Ísland/Færeyjar og Kiwanisklúbbarnir Elliði, Eldey, Esja, Hekla og Dyngja svokallað Lucas2 hjartahnoðtæki til notkunar í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Fór afhendingin fram á þyrlupallinum við Landspítala Háskólasjúkrahús í Fossvogi. Forstjóri Landhelgisgæslunnar, Georg Kristinn Lárusson veitti tækinu viðtöku fyrir hönd Landhelgisgæslunnar ásamt áhöfnum þyrla Landhelgisgæslunnar.

Tækið sem Kiwanis gaf nú í dag mun skipta sköpum í umönnun sjúklinga um borð í þyrlunum. Tækið sem kostar á þriðju milljón króna hefur verið í notkun víða með afar góðum árangri. Segja má að tækið leysi af hólmi einn mann um borð í þyrlunum þegar endurlífgun á sér stað, sem annars hefði þurft að sinna hjartahnoði. Getur hann þá sinnt öðrum mikilvægum málum í tengslum við umönnun sjúklinga um borð. Tækið veitir alltaf jafnt og gott hnoð og þreytist ekki, ólíkt mannshöndinni. Tækið er færanlegt milli véla sem eykur enn frekar notagildi þess.

Landhelgisgæslan er afar þakklát fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem mun auka verulega gæði og öryggi í umönnun sjúkra um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar. Í þakklætisskyni færði forstjóri Landhelgisgæslunnar forsvarsmönnum Kiwanis skjöld með merki Landhelgisgæslunnar.

 
Forstjóri Landhelgisgæslunnar færir forsvarsmönnum Kiwanis skjöld með merki Landhelgisgæslunnar í þakklætisskyni fyrir þessa höfðinglegu gjöf.
 
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar og Landspítala háskólasjúkrahúss ásamt Kiwanisfólki við TF-LÍF, þyrlu Landhelgisgæslunnar.