Landhelgisgæslan fær ómtæki að gjöf úr minningarsjóði Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur
Það var falleg stund í flugskýli Landhelgisgæslunnar í dag er fjölskylda Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur afhenti Landhelgisgæslunni ómtæki að gjöf úr minningarsjóði Jennýjar Lilju sem lést af slysförum í október 2015, aðeins þriggja ára gömul. Með þessari veglegu gjöf vill fjölskyldan þakka þyrlusveit Landhelgisgæslunnar fyrir aðkomuna og alla veitta aðstoð.
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar veitti gjöfinni viðtöku og þakkaði hann fjölskyldunni þann hlýhug og virðingu sem hún sýnir Landhelgisgæslunni með þessari góðu gjöf. Tækið mun gera þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar kleift að greina mun betur en áður ástand sjúklinga, ekki síst barna sem oft geta ekki tjáð sig með sama hætti og fullorðnir um hvað amar að, sérstaklega ef um innvortis eymsli er að ræða.
Starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru hrærðir yfir þeirri umhyggju sem fjölskyldan sýnir í verki en atburðurinn hafði djúpstæð áhrif á þá alla. Senda starfsmenn allir fjölskyldunni hugheilar þakkir fyrir stuðninginn.
Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar veitir gjöfinni viðtöku og þakkar fjölskyldunni fyrir hlýhuginn. |
Viðar Magnússon læknir í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar sýnir fjölskyldunni hvernig unnið er með ómtækið. |
Foreldrar Jennýjar Lilju, þau Gunnar Lúðvík Gunnarsson og Rebekka Ingadóttir ásamt börnum sínum og þeim Viðari Magnússyni þyrlulækni sem stendur lengst til vinstri, Georg Kristni Lárussyni forstjóra Landhelgisgæslunnar og Sindra Steingrímssyni flugrekstrarstjóra Landhelgisgæslunnar. |