Landhelgisgæslan fær mikilvæg tæki að gjöf úr minningarsjóði Jennýjar Lilju

Georg Kr. Lárusson veitti tækjunum viðtöku í flugskýli Landhelgisgæslunnar.

  • Gjof-5

13.11.2019 Kl: 16:30

Það var hjartnæm stund í flugskýli Landhelgisgæslunnar í dag þegar fjölskylda Jennýjar Lilju Gunnarsdóttur afhenti þyrlusveit Landhelgisgæslunnar mikilvægar gjafir úr minningarsjóði Jennýjar Lilju. Um fjórar lyfjadælur er að ræða auk tveggja blóð og vökvahitara. 

Fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka 2019 setti Minningarsjóður Jennýjar Lilju sér það markmið að safna fyrir fjórum lyfjadælum sem nýtast þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Markmiðið náðist og gott betur. Í samráði við þyrlusveitina var tveimur blóð-/vökvahiturum bætt við.

Lyfjadælurnar gera þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar kleift að skammta lyfjum með meiri nákvæmni en það er nauðsynlegt þegar flytja þarf alvarlega veik og slösuð börn. Vökvahitararnir gerir áhöfnunum kleift að hita vökva og blóð upp en það getur skipt sköpum fyrir slasaða, ekki síst slösuð börn sem mega illa við hitatapi við erfiðar aðstæður.

Foreldrar Jennýjar Lilju stofnuðu minningarsjóð í hennar nafni eftir að hún lést af slysförum 24. október 2015. Þetta er stærsta einstaka úthlutun sem minningarsjóðurinn hefur veitt. Hægt er að lesa meira um minningarsjóðinn á www.minningjennyjarlilju.is

Georg Kristinn Lárusson forstjóri Landhelgisgæslunnar veitti gjöfunum viðtöku. Við það tilefni þakkaði hann fjölskyldunni og hlaupurunum kærlega fyrir þann hlýhug og virðingu sem Landhelgisgæslunni er sýndur með þessum góðu gjöfum.

Gjof-3Georg Kristinn Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, Bergur Stefánsson, læknir, og fjölskylda Jennýjar Lilju.

Gjof-4Lyfjadælurnar gera þyrluáhöfnum Landhelgisgæslunnar kleift að skammta lyfjum með meiri nákvæmni en það er nauðsynlegt þegar flytja þarf alvarlega veik og slösuð börn.

Gjof-1Vökvahitararnir gerir áhöfnunum kleift að hita vökva og blóð upp en það getur skipt sköpum fyrir slasaða, ekki síst slösuð börn sem mega illa við hitatapi við erfiðar aðstæður.

Gjof-5Hópurinn saman kominn í flugskýli Landhelgisgæslunnar í dag.