Landhelgisgæslan hlýtur jafnlaunavottun

Georg Kristinn Lárusson, forstjóri, og Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðsstjóri, veittu í dag viðtöku skírteini þessu til staðfestingar ásamt Ólöfu Birnu Ólafsdóttur, gæðastjóra.

  • IMG_7157

10.1.2019 Kl: 16:27

Landhelgisgæslan hlaut í dag jafnlaunavottun frá vottunarstofunni Vottun hf. Georg Kristinn Lárusson, forstjóri, og Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðsstjóri, veittu í dag viðtöku skírteini þessu til staðfestingar ásamt Ólöfu Birnu Ólafsdóttur, gæðastjóra. Davíð Lúðvíksson, úttektarmaður, afhenti skírteinið fyrir hönd Vottunar hf. Jafnlaunavottunin tók gildi í desember.

Undanfarna mánuði hefur mannauðssvið Landhelgisgæslunnar unnið hörðum höndum að innleiðingu vottunarinnar með aðkomu gæðastjóra og annarra stjórnenda. Jafnlaunavottun er ætlað að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði en hún byggir á lögum frá árinu 2017 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með jafnlaunavottun hefur Landhelgisgæslan komið upp stjórnunarkerfi sem tryggir fagleg vinnubrögð sem fyrirbyggja beina og óbeina mismunum vegna kyns og að málsmeðferð og ákvörðun í launamálum byggist á málefnalegum sjónarmiðum.

Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðsstjóri Landhelgisgæslunnar segir þennan gleðilega áfanga vera staðfestingu á því að jafnlaunakerfi Landhelgisgæslunnar samræmist nú kröfum jafnlaunastaðalsins ÍST 85:2012 enda vilji stofnunin vera í fremstu röð þegar kemur að jafnréttismálum. 

IMG_7155Svanhildur Sverrisdóttir, mannauðsstjóri, Davíð Lúðvíksson, úttektarmaður, Georg Kristinn Lárusson, forstjóri, og Ólöf Birna Ólafsdóttir, gæðastjóri.

Jafnlaunavottun