Landhelgisgæslan hvetur til aðgæslu við ströndina vegna aukinnar sjávarhæðar

Á morgun er stórstreymt og sjávarstaða há næstu daga.

  • Sjolag-des-2023

13.12.2023 Kl: 11:21

Landhelgisgæslan vekur á því athygli að á morgun er stórstreymt og verður sjávarstaða því há næstu daga. Samhliða gera veðurspár ráð fyrir suðvestan stormi á öllum miðum og djúpum ásamt mikilli ölduhæð suður og vestur af landinu. 

Þá hefur Veðurstofan gefið út gular viðvaranir á sunnan- og vestanverðu landinu. Má því reikna með þungu brimi við ströndina auk þess sem áhlaðandi vegna veðurs og sjólags auki enn frekar við sjávarhæð sunnan- og vestanlands. 

Landhelgisgæslan hvetur því til aðgæslu við ströndina þar sem áhrifa sjógangs og aukinnar sjávarhæðar gætir og að hugað verði að skipum og bátum í höfnum.

Sjolag-des-2023Ölduspákort klukkan 06:00 14.12.2023. Kort fengið af sjolag.is.