Landhelgisgæslan óskaði eftir aðstoð danska flughersins
Hercules flugvél danska flughersins var snúið við og lenti á Reykjavíkurflugvelli eftir að óskað var eftir aðstoð Dana.
12.12.2019 Kl: 17:25
Landhelgisgæslan óskaði í dag eftir aðstoð frá danska flughernum vegna aðstæðna á Norðurlandi sem og leitar sem nú stendur yfir í Sölvadal. Danir tóku vel í hjálparbeiðni Landhelgisgæslunnar og var danskri C130 Hercules flugvél flughersins sem var skammt undan ströndum Íslands snúið við og lenti vélin á Reykjavíkurflugvelli laust fyrir hádegi. Ekki reyndist unnt að afferma vélina í Reykjavík og því var vélinni flogið til Keflavíkur.
Hercules vélin tók svo á loft frá Keflavíkurflugvelli á fjórða tímanum. Um borð voru 5 starfsmenn Landhelgisgæslunnar, þar af fjórir kafarar, um 30 björgunarsveitarmenn frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg auk starfsmanna frá Rarik og Landsneti. Þá er jafnframt búnaður björgunarsveitanna, bíll séraðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar og rafstrengur til að tengja varðskipið Þór við land á Dalvík. Landhelgisgæslan er afar þakklát Dönum fyrir hversu vel þeir brugðust við hjálparbeiðnni.
Meðfylgjandi myndir voru teknar örfáum mínútum fyrir brottför frá Keflavík.
Björgunarsveitarmenn, starfsmenn Landhelgisgæslunnar og aðrir sérfræðingar voru um borð í vélinni sem fór til Akureyrar.
Jónas Þorvaldsson, starfsmaður séraðgerða- og sprengjueyðingarsviðs. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eru sömuleiðis kafarar.
Búnaður viðbragðsaðila um borð í vélinni.
Bíll séraðgerðasviðs var með í för.
Hercules flugvélin danska á Keflavíkurflugvelli.