Landhelgisgæslan tekur þátt í setningu Mottumars

Landhelgisgæslan tók í dag þátt í setningu Mottumars. Með þátttöku sinni vildi Landhelgisgæslan með táknrænum hætti vekja athygli á þessu mikilvæga málefni, hvetja starfsmenn sína til árvekni um eigin heilsu og um leið heiðra minningu samstarfsfélaga sem látist hafa úr krabbameini.

Athöfnin fór fram um borð í varðskipinu Þór og voru fulltrúar Krabbameinsfélagsins, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og fjölmargra félagasamtaka viðstaddir athöfnina. Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-GNÁ kom fljúgandi yfir varðskipið og sigmaður í áhöfn þyrlunnar seig niður í skipið með svokallað Björgunarbox Mottumars. Kristján Oddsson forstjóri Krabbameinsfélagsins og Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi afhentu forstjóra Landhelgisgæslunnar, Georg Kristni Lárussyni og skipherranum á Þór, Sigurði Steinari Ketilssyni Björgunarboxið sem inniheldur fræðslumyndbönd og bæklinga um einkenni, orsakir, greiningu og meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli. Að auki má finna í boxinu bæklinga og skilaboð til karla um almenn einkenni krabbameins og þær leiðir sem taldar eru geta komið í veg fyrir þriðja hvert krabbamein.

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa undanfarin ár sett mikinn svip á Mottumars og málefnið þeim svo sannarlega skylt. Árið 2013 létust þrír starfsmenn Landhelgisgæslunnar úr krabbameini. Einn þeirra var Vilhjálmur Óli Valsson – Villi stýrimaður og sigmaður í þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar en hann lést þann 30.mars 2013 eftir stranga baráttu við krabbamein, aðeins 41 árs að aldri. Villi sigraði Mottumars árið 2013 og safnaði hann áheitum fram á síðasta dag. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar söfnuðu áheitum í Mottukeppninni árið 2014 og heiðruðu með því minningu látinna félaga. Í ár tóku svo starfsmenn Landhelgisgæslunnar þátt í Mottumars-íshokkíleik þar sem þeir kepptu ásamt fleiri löggæslustéttum á móti Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Meðfylgjandi myndir sem Anton Brink ljósmyndari tók eru frá athöfninni í dag sem fór fram í blíðskaparveðri. 

 
Gestir voru ferjaðir um borð með léttabátum varðskipsins Þórs.
 
Þyrla Landhelgisgæslunnar komin á vettvang en sigmaður úr áhöfn seig niður með Björgunarbox Mottumars.
 
Sigurður Steinar Ketilsson skipherra á Þór býður gesti velkomna um borð.
 
Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Kristján Oddsson forstjóri Krabbameinsfélagsins afhenda skipherranum á Þór og forstjóra Landhelgisgæslunnar Björgunarbox Mottumars.
 
Jens Garðar Helgason formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Karen Kjartansdóttir upplýsingafulltrúi samtakanna.